Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Þegar við ræðum fjárlög er í mörg horn að líta. Ég er með tvö, þrjú, kannski fjögur atriði sem mig langar að nefna í þessari stuttu ræðu minni hér.

Ég fór yfir loftslagsmálin í fyrstu ræðu minni við þessa umræðu. Mig langar núna að byrja á því að ræða málefni öryrkja og þá sérstaklega þá þjónustu sem er veitt í gegnum NPA-kerfið, sem við erum eðli máls samkvæmt að fjalla dálítið mikið um í tengslum við fjárlög þetta árið þar sem samtímis er verið að vinna í velferðarnefnd að breytingum á NPA-lögunum, sem ríkisstjórnin hefur kosið að spinna á þann hátt að hún sé að framlengja bráðabirgðaákvæði þegar raunin er að stjórnarflokkarnir eru að fresta fullri gildistöku þess ákvæðis.

Spólum kannski aftur til ársins 2018 þegar við vorum að ræða NPA-lögin hér á Alþingi. Þá benti t.d. NPA miðstöðin, fólkið sem best þekkti til, á að það væri dálítið undarlegt að stilla upp einhverjum innleiðingarfasa með þessu bráðabirgðaákvæði í lögunum þegar innleiðingarfasi hefði í raun staðið frá árinu 2011. Það var búið að prufukeyra kerfið í sérstöku innleiðingarverkefni og nú væri bara kominn tími á fulla gildistöku og að skilgreina þetta sem réttindi sem einstaklingar gætu sótt. Niðurstaðan varð hins vegar sú að innleiða þetta í tröppugangi þannig að settur var kvóti á það hversu margir einstaklingar mættu gera NPA-samninga á hverju ári. Sá kvóti hefur aldrei verið uppfylltur. Nú er svo komið að síðasta ár bráðabirgðaákvæðis í upphaflegu lögunum er yfirstandandi ár, 2022. Þá áttu að vera til komnir allt að 172 samningar samkvæmt ákvæðinu. Raunin er hins vegar sú að samningarnir eru ekki nema rúmlega 90 þannig að það eru svona helmingsefndir á þessu ákvæði. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur ákveðið að elta ekki þennan vilja löggjafans að þessi fjöldi einstaklinga eigi að njóta réttindanna heldur vilja, eins og birtist í fjárlögum hvers árs, einfaldlega skammta of naumt til að uppfylla þessa samninga. Fjárlög hafa því orðið takmarkandi þáttur á réttindum sem eru nokkuð skýr í þessum sértæku lögum.

Óréttlætið sem birtist í þessu er svo himinhrópandi ef við horfum bara á alls konar millifærslukerfi sem eru í gangi þar sem kannski er gert ráð fyrir ákveðnu umfangi á fjárlögum en svo þegar á reynir kemur í ljós að þörfin er miklu meiri en ráð var fyrir gert. Þá er ekki sagt: Nei fyrirgefðu, Jodie Foster, við reiknuðum ekki með svona mikilli endurgreiðslu á kvikmyndum. Þú verður bara að vera úti með þína framleiðslu, farðu bara til Írlands. Það er ekki gert. Það er einfaldlega brugðist við aukinni eftirspurn á fjáraukalögum eða á einhvern annan hátt.

Eins er með rafbílana þar sem á næsta ári stendur til að opna kranann í rauninni. Það verður enginn kvóti á fjölda rafbíla sem njóta ívilnunar þannig að sá kostnaðarliður í fjárlögum mun væntanlega sveiflast ansi mikið ef fólk hleypur til og stekkur á rafmagnsvagninn. Þessi dæmi sýna svo vel hvernig það skiptir máli hver það er sem nýtur hinna sameiginlegu gæða. Í tilviki öryrkja, jaðarsetts hóps sem ekki nýtur jafn skilningsríkrar hlustunar af hálfu stjórnvalda og margir aðrir hópar, þá virðist vera ásættanlegt fyrir meiri hlutann að láta færri einstaklinga njóta réttinda eftir því hvernig vindar blása við fjárlagagerð. Þetta þykir mér mjög slæm uppsetning. Þetta ætti náttúrlega ekki að þurfa að vera svona, ef einhver í fjármálaráðuneytinu hefði ekki ákveðið að fjárlögin ættu að setja þennan stífa ramma utan um NPA-samningana sem ekki er settur utan um t.d. ívilnanir til rafmagnsbíla. Þess vegna held ég að full ástæða sé fyrir okkur hér á þingi að binda þetta aðeins fastari böndum í NPA-frumvarpinu sem við erum með til umfjöllunar. Ég reikna með að geri velferðarnefnd það ekki sjálf muni ég standa fyrir breytingartillögu við NPA-frumvarpið þannig að í staðinn fyrir að á næstu tveimur árum verði allt að 145 og 172 samningar gerðir, verði einfaldlega sagt að það verði a.m.k. 145 eða 172 samningar gerðir, að því gefnu að nógu margar umsóknir berist. Þar með væri alveg á hreinu að vilji löggjafans stæði til þess að þessi fjöldi væri það sem réði en ekki það hvort fjármálaráðuneytið hefði slumpað á réttan kostnað eða ekki.

Að því sögðu vil ég þó taka fram að mér finnst þessi kvóti í grundvallaratriðum röng nálgun. Einfaldlega ætti að rífa plásturinn af og innleiða NPA að fullu þannig að allir þeir einstaklingar sem á þurfa að halda geti einfaldlega sótt sér þetta, óháð því hvað einhver kvóti í NPA-lögum eða fjárlögum segir. NPA miðstöðin bendir á í umsögn sinni að væntanlega myndu milli 200 og 250 einstaklingar nýta sér NPA þegar allt væri til talið og því er meira að segja viðmiðið um 172 einstaklinga vanáætlað.

Talandi um það hvernig aðgerðir stjórnvalda byggi á mati og áætlunum og hvernig það að vanda ekki til verka getur haft slæmar afleiðingar, þá langar mig að nefna gamalt áhugamál mitt sem er mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa, sérstaklega jafnréttismatið sem hefur verið í innleiðingarfasa í ein 10–20 ár í Stjórnarráðinu og er enn ekki komið að fullu til framkvæmda. Mig langar að segja að það sem skorti kannski núna sé róttæka skrefið, en þetta er nú ekki giska róttækt. Það sem er farið að gerast og sýna sig í fjárlögum eða öðrum frumvörpum, er að uppi í ráðuneytum er framkvæmt jafnréttismat til að varpa ljósi á stöðuna, segja hvað það er sem frumvarpið er líklegt til að hafa í för með sér. En næsta skref virðist ekki vera tekið. Tilgangur þessarar greiningar hlýtur að vera að brugðist sé við stöðunni og að greiningin hafi t.d. einhver áhrif á fjárlagafrumvarpið eða önnur frumvörp þannig að þau stuðli að auknu jafnrétti, færri frumvörp viðhaldi óbreyttu ástandi og ekkert auki kynjaskekkjuna í samfélaginu.

Á þetta hefur t.d. verið bent í umsögn félagsins Femínísk fjármál við frumvarp til laga um fjárlög og það félag hefur ítrekað bent á akkúrat þetta, og ekki að ósekju, þar sem áhrifamat er oft með miklum ólíkindum þegar það kemur frá ráðuneytum. Ég gerði mér t.d. að leik að rýna þau frumvörp sem höfðu farið í gegnum jafnréttismat á 148. löggjafarþingi og það vakti athygli mína að ráðuneytin voru að segja hluti eins og að það væri ekki þörf á jafnréttismati, en voru kannski ekki með neinar upplýsingar til að byggja þá fullyrðingu á.

Sem dæmi má nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði sem var 215. mál á 148. löggjafarþingi. Það snerist um stjórn álaveiða og sérstaklega var tekið fram í greinargerðinni að það væru afar litlar upplýsingar til um álaveiðar við Ísland. Þetta er veiðigrein sem hefur verið stunduð dálítið af bændum sem eru með mýrar og læki þar sem ála kann að vera að finna, en engin skráning hefur farið fram á því hver stundar þetta eða hversu mikil veiðin er. Nema hvað, eftir að ráðuneytið segir að það viti ekki neitt um stöðu mála þá kemur fram sú staðhæfing að ákvæði frumvarpsins hafi áhrif á konur jafnt sem karla og hafi þess vegna ekki áhrif á stöðu kynjanna.

Eitthvað hafa ráðuneytin nú bætt framkvæmdina síðan, en þetta þótti mér ekki til marks um að kynjafræðileg greining á áhrifum frumvarpa byggði á sérstaklega mikilli þekkingu eða djúpri reynslu. Þetta bendir félagið Femínísk fjármál á og nefnir síðan í umsögn sinni að þetta hafi auðvitað áhrif, af því að kynjagreining á fjárlagafrumvarpi snýst líka um að standa vörð um heilbrigðiskerfið sem er rekið áfram af kvennastéttum að mestu leyti. Flest starfsfólk innan heilbrigðiskerfisins er hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, þar sem konur eru í yfirgnæfandi meiri hluta. Ef langtímasýn í ríkisfjármálum á að vera skynsamleg og sjálfbær þá hlýtur hún að snúast um að hlúa svo vel að stéttum sem m.a. starfa í heilbrigðiskerfinu að fólk flosni ekki upp vegna þess að starfsaðstæður, líkamlegt eða andlegt álag og streita neyði það til að skipta um starfsvettvang. Það er nefnilega stundum talað um áhrifamat eins og það sé einhver óþarfur samkvæmisleikur en mat á áhrifum frumvarpa á stöðu kynjanna leiðir til vandaðri lagasetningar og hefur bein áhrif á ýmis grunnkerfi, grunninnviði samfélagsins.

Femínísk fjármál benda líka á að það sé nokkuð sérstakt að stefna leiðtoga tveggja ríkisstjórnarflokka varðandi t.d. hvalrekaskatt, hækkun veiðigjalds eða hækkun skatts á fjármagnstekjur birtist ekki í fjárlagafrumvarpinu heldur sé aðaltekjuöflunaraukningin þvert á móti hækkun skatta á neyslu einstaklinga. Ef við setjum upp kynjagleraugun aftur þá vitum við náttúrlega að önnur samsetning er á þeim hópi sem er þiggjandi fjármagnstekna heldur en á þeim sem fær tekjur sínar í gegnum launagreiðslur. Þess vegna má ætla að áhersla á neysluskatta feli í sér einhverja kynjaskekkju. Sé þeim hlíft sem hafa miklar fjármagnstekjur er þar sennilega um að ræða karlpening á efri árum í auknum mæli miðað við fólk sem þiggur hefðbundnar launagreiðslur.

Það hvernig jafnréttismat er framkvæmt leiðir okkur líka að umræðu um það hvernig áhrif aðgerða stjórnvalda á loftslagsmál eru metin eða ekki metin. Hér í 1. umr. um fjárlög veifaði ég þessum doðranti frá norsku ríkisstjórninni sem lagði fram, samhliða fjárlögum, stöðuskýrslu um loftslagsmál og hvernig aðgerðir stjórnvalda væru að hafa áhrif á þau. Auðvitað á svona að fylgja með fjárlögum árið 2022. Þegar aðgerðir í þágu loftslagsmála eiga að vera allt yfir fjárlögunum þá skiptir öllu máli að meta stöðuna og segja hvaða aðgerðir eru að vinna í rétta átt, ekki síst þegar í ljós er komið, samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar sem birtust í haust, að aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa til þessa skilað því að á milli áranna 2020 og 2021 jókst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 3%. Hún jókst á sama tíma og við ættum að vera að lækka losun á hverju einasta ári. Það var búið að binda svo laust utan um allar aðgerðir stjórnvalda að um leið og efnahagslífið fór af stað eftir Covid sprakk losunin út. Þar munar væntanlega einna mest um orkuskipti í samgöngum eins og Umhverfisstofnun hefur nefnt. Út frá því er súrsætt að geta bent á það að Orkustofnun hafi fyrr í mánuðinum kynnt orkuskiptalíkan sitt, frábært verkfæri til að sjá hvernig breytingar á áherslum og stefnu stjórnvalda geta haft áhrif á heildarlosun Íslands. Sú staðreynd að svona líkan hafi ekki verið til staðar fyrir mörgum árum til að leiðbeina stjórnvöldum við að taka réttar ákvarðanir er eiginlega ótrúlegt, virðulegur forseti, líka í ljósi þess að á þessum fjárlögum er verið að auka aðeins álögur á rafbíla svo efnahagslegi hvatinn á milli þeirra og bensín- og dísilbíla minnkar. Ég er algerlega þeirrar skoðunar að við þurfum að endurskoða hvernig við beitum ívilnunum í þágu rafbíla. Ég minni t.d. á tillögu hv. þm. Pírata, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, frá síðasta vetri þar sem hún lagði til að full ívilnun rynni til þeirra sem eru að kaupa rafbíl sem eina bíl heimilis og myndi síðan helmingast til þeirra sem væru að kaupa bíl númer tvö, og ef fólk væri í þeim efnum að geta átt þrjá bíla og rafbíllinn væri sá þriðji þá fengi sá bíll enga ívilnun.

Þá þarf líka að ávarpa þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur enn ekki tekið almennileg skref í áttina að því að auka álögur á mengandi bíla, bæði til að draga úr ástæðu fyrir fólk að kaupa mengandi bíl sem verður á götunum í mörg ár og líka til að gera þetta ívilnanakerfi sjálfbært. Eins og staðan er í dag er það ríkissjóður sem stendur undir ívilnunum í þágu rafmagnsbíla, en í heilbrigðu ívilnanakerfi þá væri það einfaldlega þannig að fólkið sem hefur efni á því að kaupa sér nýjan bensínbíl árið 2022, þegar kvótinn okkar fyrir nýjum bensínbílum er í rauninni búinn, væri með sinni fjárfestingu í mengandi bíl að niðurgreiða fjárfestingu annarra í minna mengandi bíl. (Forseti hringir.) Þannig þyrfti ríkið mjög lítið að leggja inn í það kerfi.

Forseti. Ég komst ekki yfir allt sem ég ætlaði að ræða en geri það kannski síðar. Þetta er svo takmarkaður tími, herra forseti.