Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:24]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir sína ræðu. Mig langar að ræða aðeins NPA-samningana við hann. Í minnisblaði sem NPA-miðstöðin sendi frá sér núna vegna fjárlagafrumvarps í desember segir:

„Samkvæmt umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. desember 2022, var meðalkostnaður NPA samninga 30,6 millj. kr. árið 2021. Því má ætla að um vanáætlun sé að ræða í mati á áhrifum frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að meðaltalskostnaður á samning séu 30 milljónir fyrir árið 2023. Afar ólíklegt er því að þær 375 milljónir sem mælt er fyrir dugi til að mæta þeim 50 samningum sem gert er ráð fyrir að náð verði árið 2023 með framlaginu. Auk þess kemur stytting vinnuvikunnar inn í þetta og kjarasamningsbundnar hækkanir sem orðið hafa á launum aðstoðarfólks. Ljóst er að endurskoða þarf mat á áhrifum þegar áhrif þegar áhrif slíkra þátta hafa komið fram.“

Ég horfi bara á þessar tölur og ef samningur kostar 30 milljónir og framlögin eru 375 milljónir og þörfin er fyrir 50 samninga þá sýnist mér að í fjárlögum sé gert ráð fyrir 12,5 samningum miðað við verðlag árið 2021, fyrir tveimur árum. Mig langaði bara til að heyra hvað hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur um þetta að segja.