Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hér lendum við í því að þetta er orðin dálítið flókin reikniformúla sem er verið að setja fram í tengslum við NPA-samningana. 375 milljónir á fjárlögum duga fyrir 50 samningum, þar sem meðalsamningurinn kostar kostar 30 milljónir vegna þess að það er bara fjórðungur af kostnaðinum sem ríkið leggur fram. En þar erum við líka komin að öðru. Eitt er spurningin um vanáætlun kostnaðar. Ég held að hún sé algerlega til staðar, þetta sé of lág upphæð út frá því. Síðan er það spurningin um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar hefur hnífurinn staðið í kúnni í fimm ár. Fyrir fimm árum sögðu sveitarfélögin að 25% sem ríkið ætlaði að leggja inn í kerfið dygðu ekki, sveitarfélögin þyrftu að ríkið kæmi með 30%. Sú krafa hefur haldið sér í hvert einasta sinn sem þessi mál koma til umræðu og í nefndaráliti með frumvarpi til laga um NPA les maður að við í velferðarnefnd á þeim tíma höfum séð fyrir okkur að kannski tveimur árum eftir gildistöku laganna væri hægt að endurskoða þetta og jafna leikinn milli ríkis og sveitarfélaga. Nú eru önnur tvö ár liðin og það er ekki fyrr en á næstu vikum sem ráðuneytið sér fyrir sér að ná einhverri niðurstöðu í þessum viðræðum og sú niðurstaða er náttúrlega fyrirsjáanleg. Hún verður einfaldlega sú að sveitarfélögin höfðu rétt fyrir sér fyrir fimm árum. Ég sé ekki að nokkuð annað geti átt sér stað. Þá eykst nú strax þörfin á ríkisframlagi úr 25 í 30% af hverjum NPA-samningi og þá er fjárlagaramminn brostinn.