Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:28]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir útskýringuna. Þegar maður hefur ekki heildarmyndina þá er gott að geta spurt. En staðreyndin er sú að fjármagn hefur ekki fylgt, alla vega ekki þannig að það hafi dugað til sveitarfélaganna sem hafa látið í sér heyra út af því ítrekað, skiljanlega. Það er náttúrlega líka gagnvart einstaklingunum sem þurfa þessa þjónustu algjörlega óboðlegt að þjónustan geti verið misjöfn eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir búa. Það er eitthvað mjög rangt við það. En það á að fjármagna, skilst mér, aðeins 145 samninga á næsta ári en þegar lögin um NPA voru samþykkt var miðað við að árið 2022 yrði búið að gera 172 samninga. Ég er að spá í hvort það hljóti ekki að liggja fyrir hver þörfin er, hversu margir þurfa eða að eiga rétt á NPA-þjónustu og hvort fjárframlög ættu ekki að miða við þann fjölda.