Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þessa spurningu vegna þess að sú framsetning sem er í frumvarpinu um NPA, sem er til umfjöllunar hjá þinginu í dag, er svo skemmtilega óheiðarleg. Þau segja að það sé verið að fjölga samningum og framlengja bráðabirgðaákvæði. Það hljómar mjög vel. En það er verið að fresta fullri gildistöku bráðabirgðaákvæðis um tvö ár. Það er verið að fjölga samningum, jú, frá þeim 90 sem eru núna upp í það að þeir geti orðið allt að 145 á næsta ári en þeir áttu að vera 172 á þessu ári. Með réttu er verið að tefja fulla innleiðingu um tvö ár og það er verið að fækka samningum um 15%. Það er verið að fækka samningum miðað við hvað lögin segja að þeir ættu að vera margir. Þeir áttu að vera 172 á þessu ári. Þeir verða 145 á næsta ári. Það er 15% fækkun samninga þannig að allt jarm stjórnarliða um að hér sé verið að auka réttindi þjónustuþega NPA er bara bull. Það er gott að fá að koma því aðeins frá mér.

Síðan er hitt sem ég hef áhyggjur af og ræddi reyndar hér við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson, ef ég man rétt. Það er hvort við höfum einhverja ástæðu til að treysta því að það gangi núna að innleiða þetta að fullu. Þau runnu á rassinn með að innleiða þetta fyrir þessi áramót og fá þá frestun upp á tvö ár eða biðja um frestun upp á tvö ár. Hvað gerist eftir tvö ár þegar þau eru runnin á rassinn þá og ef þau halda áfram með þessa orþódoxíu um að samningarnir verði aldrei fleiri en fjárlög segja, þó að NPA-lögin segi annað? Þess vegna, forseti, þurfum við að breyta orðalagi NPA-laganna þannig að það sé alveg ljóst að fjárheimildir muni ekki vera takmarkandi þáttur í þessum mannréttindum.