Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt. Ég er algerlega sammála því að það sé mjög mikilvægt að það séu fjárveitingar til NPA-samningana og að allir fái NPA-samning sem þess þurfa. Vissulega er rétt að þjónustan á að vera sem næst fólkinu, það er mikilvægt. Mér finnst hins vegar, í ljósi fjölda sveitarfélaga og hversu smá þau eru og líka hversu fá við erum í íslensku samfélagi, að þessi fjarlægðarmörk frá ríkisvaldinu séu þá ekki kannski — við erum öll mjög náin hérna. Fólk úti á landi, það eru mikil tengsl þar á milli og ríkið er svo fjarlægt. Ég hefði a.m.k. viljað að þetta væri að hluta til á hendi ríkisins, jafnvel þá svæðisbundið þar sem mörg þjónusta ríkisins er.

Það er alveg hárrétt að verið er að flytja þarna verkefni yfir á sveitarfélögin og það fylgir ekki fjármagn og það skapar vandamál. Það fríar svolítið ríkisvaldið, fjárveitingavaldið, við þessu. Það sker það niður og eftir sitja sveitarfélögin með þennan kaleik. Þannig að ég held að þetta sé kerfislægt vandamál líka. Það er verið að brjóta rétt á fólki sem fær ekki þessa samninga og þetta er gríðarlega íþyngjandi en okkur hefur ekki tekist að afla meira fjármagns til þessara samninga. Það er náttúrlega stóra málið. Ef það væru nægilegir peningar — það er á ábyrgð ríkissjóðs, það er ekki á ábyrgð sveitarfélaga. Þetta er ábyrgð ríkisins á endanum, svo að það liggi fyrir.

Ég get ekki sleppt hv. þingmanni án þess að nefna hlutverk Íslands í loftslagsmálum. Hvert ætti hlutverk Íslands í loftslagsmálum að vera? Er það skilgreint hlutverk? Er það ekki að uppfylla Parísarsamkomulagið, uppfylla Kyoto-bókunina og sjá til þess að við séum með orkuskipti og almenningssamgöngur (Forseti hringir.) sem leiða til þess að við stöndum okkur í loftslagsmálum? Hefur íslenskt hlutverk (Forseti hringir.) verið skilgreint sérstaklega í loftslagsmálum?