Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi NPA. Smæð sveitarfélaga er efni í töluvert miklar umræður en varðandi málefni fatlaðs fólks geta sveitarfélög náttúrlega bundist böndum á stærra svæði og þannig einhvern veginn hjálpast að við að sinna flóknari verkefnum. (EÁ: Ég er sammála.) Já, þessi byggðasamlög geta virkað. Þetta eru samt það stór verkefni að stundum dugar ekki einu sinni að sópa saman sveitarfélögum á stóru svæði undir einn hatt. Aðalatriðið er einmitt, eins og hv. þingmaður nefndi, að þetta er réttur einstaklinga og það er ábyrgð ríkisins að sjá til þess að þessi réttur sé uppfylltur. Hluti af því er að ríkið á að sjá til þess að sveitarfélög séu í stakk búin til að sinna þessari þjónustu.

Varðandi það hvort hlutverk Íslands í loftslagsmálum sé nægilega vel skilgreint sig þá myndi ég segja engan veginn. Tökum bara grunnmarkmiðin. Ríkisstjórnin er með markmið í stjórnarsáttmála sem hún vill fyrir enga muni formfesta með því að setja í lög. Þannig að einu markmiðin í lögunum, mælanlegu markmiðin, eru kolefnishlutleysi árið 2040 þegar allir sérfræðingar kalla á að áfangamarkmið ársins 2030 verði lögfest, sem er það sem Parísarsáttmálinn miðaði við t.d. Grunnmarkmið Parísarsáttmálans er hins vegar aðeins loðnara og kannski erfiðara að færa yfir á einstaka ríki því að markmiðið þar er að halda hlýnun jarðar innan 1,5° miðað við upphaf iðnbyltingar. Ísland eitt og sér getur það aldrei, þetta er sameiginlegt verkefni alls heimsins. En það sem við gætum gert væri að ganga fram með góðu fordæmi, verða með fyrstu ríkjum til að ná kolefnishlutleysi, verða t.d. fyrsta ríkið til að ná kolefnishlutleysi í samgöngum, gera hér samning við bílaleigurnar þannig að allir túristar (Forseti hringir.) sem koma til Íslands eftir þrjú, fjögur ár keyri um á hreinni endurnýjanlegri íslenskri orku. Þá verður það (Forseti hringir.) hluti af ferðaupplifuninni, þá verður það hluti af þeim skilaboðum sem fólk kemur með frá Íslandi. Það er hlutverk sem við getum tekið að okkur.