Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:56]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingheimur og kæra þjóð, þið sem heima sitjið og fylgist með. Mig langar til að ræða hérna aðeins um SÁÁ og alkóhólisma eða fíknisjúkdóma. Það kom bréf frá SÁÁ í gær sem hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Efni: Breytingartillögur á fjárlagafrumvarpi 2023 vegna framlags til SÁÁ.

Samkvæmt breytingartillögum á fjárlagafrumvarpinu verða framlög til SÁÁ aukin um 120 milljónir til viðbótar við upprunalega tillögu í fjárlagafrumvarpi. SÁÁ vilja í fyrsta lagi koma á framfæri þökkum til fjárlaganefndar fyrir velvilja þann sem hún hefur sýnt starfsemi SÁÁ, það er afar verðmætt að finna velvilja og stuðning nefndarinnar.

Þrátt fyrir að það sé jákvætt að framlög til SÁÁ verði að hluta til lagfærð, þá vantar því miður enn þá mikið upp á framlög til SÁÁ. Eins og kom fram í innsendu erindi til fjárlaganefndar dugar þetta því miður ekki til að halda úti viðunandi heilbrigðisþjónustu hjá SÁÁ sem mun hafa áhrif á marga veika einstaklinga sem þurfa sárlega á henni að halda. SÁÁ þarf samt sem áður að skera niður um 200 milljónir króna á árinu 2023 sem jafngildir“ — og hlustið nú — „að minnsta kosti 270 færri innlögnum á Sjúkrahúsið Vog, að minnsta kosti 160 sjúklingar fái ekki meðferð við ópíóðafíkn,“ — sem fer ört vaxandi og er stórhættuleg og veldur dauða — „sumarlokun á Vík og göngudeild, sumarlokun á Sjúkrahúsinu Vogi í fyrsta sinn.“ — Síðan 1983 þegar það var tekið í notkun. Það er rosalega stórt skref að þurfa að loka heilu sjúkrahúsi fyrir sárveikum einstaklingum.

„Ef niðurstöður fjárlaga verða óbreyttar frá því sem birtist í breyttu fjárlagafrumvarpi gerum við okkur vonir um að næsta skref af hálfu yfirvalda verði að fara í gerð þjónustusamninga við SÁÁ til lengri framtíðar. Það er að okkar mati eina leiðin til að koma í veg fyrir að óvissa ríki árlega um þjónustuna og að það þurfi ekki að fara í björgunaraðgerðir á hverju ári.

Virðingarfyllst, Anna Hildur Guðmundsdóttir, vormaður SÁÁ.“

Mig langar aðeins til að spjalla um það hvað alkóhólismi raunverulega er, bara svo þið gerið ykkur grein fyrir því, kæra þjóð. Alkóhólismi er þriðji stærsti dauðsvaldurinn, baneitraður sjúkdómur, næst á eftir krabbameini og hjartasjúkdómum. Þessi sjúkdómur er lúmskur og lævís. Ég ætla að lesa hérna, með leyfi forseta, aðeins úr þessari bók, AA-bókinni, sem var gefin út 1939 og heitir á ensku The Big Book – Alcoholics Anonymous. Á íslensku er það AA-bókin. Ég ætla að lesa hérna úr 3. kafla, Meira um alkóhólisma, sem er eitthvað á þessa leið:

Okkur hefur flestum reynist erfitt að viðurkenna að við værum í raun og veru alkóhólistar. Engum geðjast að þeirri tilhugsun að vera talinn líkamlega eða andlega frábrugðinn öðru fólki. Það er því ekkert skrýtið að drykkjuferill okkar sé varðaður óteljandi árangurslausum tilraunum til að sanna að við getum drukkið eins og venjulegt fólk. Allir ofdrykkjumenn halda fast í þá þráhyggju að þeir muni einhvern tíma og með einhverjum hætti getað haft stjórn á drykkju sinni og notið hennar. Það er furðulegt hvað þessi blekking er lífseig, margir halda í hana þangað til hún leiðir þá til geðveiki eða dauða.

Við gerðum okkur ljóst að við urðum að játa það heils hugar fyrir sjálfum okkur að við værum alkóhólistar. Það er fyrsta skrefið í átt til bata. Við þurfum að hætta að telja okkur trú um að við séum eins og annað fólk eða að við getum orðið það.

Við alkóhólistar erum karlar og konur sem höfum misst stjórn á áfengisneyslu okkar. Við vitum að enginn sem í raun og veru er alkóhólisti nær nokkru sinni stjórn á neyslu sinni. Það hafa komið þeir tímar að við héldum að við værum að ná tökum á drykkjunni, en slíkum tímabilum, og yfirleitt voru þau mjög stutt, fylgdi óhjákvæmilega enn meira stjórnleysi sem smám saman leiddi til aumkunarverðrar og óskiljanlegrar siðgæðishnignunar. Við erum sannfærð um það, öll sem eitt, að alkóhólistar eins og við erum haldnir stigversnandi sjúkdómi. Með tímanum mun hann versna, aldrei batna.

Það má líkja okkur við manneskju sem hefur misst fæturna. Þeir vaxa ekki upp á nýtt. Það virðist heldur ekki vera til meðferð sem gerir alkóhólista á borð við okkur eins og annað fólk. Við höfum reynt öll hugsanleg úrræði. Í einhverjum tilfellum var um tímabundinn bata að ræða, en bakfallið varð þá þeim mun verra. Læknar sem vita eitthvað um alkóhólisma eru sammála um að það sé útilokað að hægt sé að gera hófdrykkjumann úr alkóhólista. Vera má að það takist einhvern tímann með hjálp vísindanna, en enn þá hefur ekkert slíkt gerst.

Þrátt fyrir allt sem við höfum frá að segja munu margir alkóhólistar ekki trúa því að þetta eigi við um þá. Þeir munu reyna að sanna það með margs konar sjálfsblekkingu og tilraunastarfsemi að þeir séu undantekning frá reglunni og þar með ekki alkóhólistar. Ef einhver sem misst hefur stjórn á drykkju sínu getur snúið við blaðinu og farið að drekka í hófi þá tökum við ofan fyrir honum. Hamingjan veit, að við höfum sannarlega reynt vel og lengi að drekka eins og annað fólk.

Hér eru nokkur dæmi um aðferðir sem við höfum prófað:

Við höfum reynt að drekka eingöngu bjór, drekka takmarkaðan fjölda drykkja, drekka ekki einsömul, drekka aldrei á morgnana, drekka bara heima, eiga aldrei áfengi heima, drekka aldrei í vinnutíma, drekka bara í veislum, skipta frá viskíi yfir í koníak, drekka bara léttvín, við höfum jafnvel samþykkt að segja upp vinnunni ef okkur yrði það á að mæta þangað drukkin, við höfum reynt að fara í ferðalag, reynt að fara ekki í ferðalag, lofað að hætta að drekka (með og án heitstrenginga), prófað að stunda meiri líkamsrækt, lesa uppbyggjandi bækur, fara á hressingarhæli og/eða heilsuhæli, láta vista okkar á stofnun — og við gætum endalaust bætt við þennan lista.

Það er ekki okkar hlutverk að fullyrða að einhver sé alkóhólisti en þú getur auðveldlega gert þína eigin sjúkdómsgreiningu. Farðu bara á næsta bar og prófaðu að hafa stjórn á drykkjunni. Byrjaðu að drekka og stoppaðu svo allt í einu. Prófaðu þetta oftar en einu sinni. Ef þú skoðar árangurinn heiðarlega verður þú ekki lengi að komast að því hvar þú stendur.

Ef þetta getur opnað augu þín fyrir stöðu þinni þá er það sannarlega timburmannanna virði.

Eitt sinn alkóhólisti, alltaf alkóhólisti.

Það hefur verið talað um það að þeir sem hætta að drekka, og það er sannað, í einhvern árafjölda haldi — og ég er einn af þeim, ég hætti einu sinni að drekka í þrjú ár og hélt ég gæti byrjað að drekka aftur. En fólk sem er alkóhólistar á annað borð hættir að drekka og byrjar svo eftir einhver ár að drekka aftur fer ekki á sama stað og það var áður þegar það hætti að drekka heldur fer það á þann stað sem það hefði verið á ef það hefði haldið áfram að drekka allan tímann því að alkóhólismi þróast, þróast og þróast endalaust með okkur en við höldum honum í skefjum með því að drekka ekki. Sú aðferð sem hefur reynst alkóhólistum mjög vel, og það er nánast eins þýðingarmikið fyrir alkóhólistann eins og insúlín er fyrir sykursjúklinginn, er að fara í 12 spora samtök og stunda slíka starfsemi sem þar fylgir. Það er í dag nánast eina aðferðin sem þekkt er sem virkar. Vissulega fara margir í meðferð, koma út og notfæra sér það sem kennt er í meðferðinni til að halda í skefjum drykkjufíkninni, drykkjusýkinni. SÁÁ rekur spítalann sem við köllum Vog og þar er raunverulega sú starfsemi til staðar þar sem menn fara í svokallaða afvötnun. Þeir koma iðulega, ekki alltaf en oftast, undir áhrifum og það tekur einhvern tíma að renna af þeim og síðan fá þeir upplýsingar um það hvað alkóhólismi er. Margir segja sem svo: Mér fannst að það væri verið að lýsa mínu lífi á töflunni þegar var verið að útskýra fyrir fólkinu — sem alltaf er gert — hvernig alkóhólisminn þróast, hvernig alkóhólisminn virkar. Þetta eigum við allt sameiginlegt þó svo að drykkjumunstur okkar geti verið mjög mismunandi. Það eru dæmi þess að maður sem drekkur bara tvisvar á ári getur verið alveg jafn mikill alkóhólisti og sá sem drekkur 50 sinnum á ári. Sjúkdómurinn lýsir sér mismunandi þó að við eigum alltaf eitthvað sameiginlegt og tengjum þegar við heyrum sögur hver annars. Ég vil meina að það yrði aldrei lagt of mikið fé til SÁÁ og þeirrar starfsemi sem þar er og til annarra stofnana sem eru með álíka starfsemi á sínum snærum.