Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þetta er efni sem við höfum þurft að koma hérna með margoft því að það er tilefni til. Það hvernig við glímum við fíknisjúkdóma á Íslandi, ekki bara alkóhólisma en tvímælalaust líka alkóhólisma þar sem áfengi er eina löglega vímuefnið sem við glímum við, er risastórt vandamál. Frá mínum bæjardyrum séð hefur SÁÁ vissulega lyft grettistaki í meðferðum o.s.frv. en sviðið er líka stærra. Það sem mér finnst vanta hjá stjórnvöldum er að segja okkur hvert umfang vandans er, að segja: Við glímum við svona stórt vandamál. Þar af leiðandi leggjum við til meðferðarúrræði, forvarnaúrræði o.s.frv. til að breyta bæði umfanginu á vandanum og því hvernig við meðhöndlum umfangið í heild sinni, hvort sem það er bara SÁÁ eða fleiri meðferðarúrræði um allt land eða hvernig það fyrirkomulag raðast upp. Það er það sem okkur vantar alltaf einhvern veginn inn í umræðuna, bæði í fjármálaáætlun og fjárlögum. Við vitum ekki hvert heildarumfangið er og ég held að fólk þarna úti átti sig oft heldur ekki á því í sjálfu sér. Alkóhólismi er svo lúmskur sjúkdómur að fólk áttar sig oft ekki á því að það er ekki bara það að vilja vera drukkinn eða vera róni eða eitthvað svoleiðis sem þýðir að vera alkóhólisti. Það er líka hvernig þú getur ekki farið með áfengi, farið með þetta vímuefni. Mér finnst þetta alltaf vanta í heildarsamræðurnar þannig að ég þakka hv. þingmanni eilíflega fyrir það að koma og minna alltaf á þennan stóra vanda í samfélaginu.