Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:09]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég þakka falleg orð í kjölfar tjáningar minnar og ræðu og tek undir að þetta er lúmskur og lævís og banvænn sjúkdómur sem menn vita raunverulega lítið um. Vandinn er líka oft sá að þeir sem eru með þennan sjúkdóm berjast við að segja: Nei, ég er ekki með þennan sjúkdóm. Það er stóra vandamálið. Ef einhver segir við mig að ég sé væntanlega með krabbamein þá hætti ég ekkert fyrr en ég kemst undir læknishendur og geri allt sem ég mögulega get til þess að losna við það. Ef einhver segir: Heyrðu, ég held að þú sért alkóhólisti, þá segi ég : Nei, ég er ekki alkóhólisti, ég drekk ekki svona, drekk ekki hinsegin og þetta er bara allt í lagi og bla, bla. Þetta er stórt vandamál. Svo er annað að við tölum um alkóhólisma sem er raunverulega bara samheitaorð fyrir vímuefnafíkn í allri sinni mynd, því fólk sem aldrei hefur drukkið áfengi getur verið haldið mjög alvarlegum fíkniefnasjúkdómi jafnvel háð svokölluðu læknadópi. Það fer til læknis og segir: Mér líður illa og ég þarf eitthvað, og þá fær það alls konar; líbríum, valíum, díazepam, bara „what ever“, fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti. Þetta er stórhættulegt. Þetta er, eins og komið hefur fram áður, svo lúmskt að maður áttar sig ekkert á því hvar maður stendur.