Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka orð hv. þingmanns sem voru sögð af mikilli innlifun. Það er mikilvægt í þessum málaflokki því að eins og hv. þingmaður minnist á er þetta rosalega lúmskt. Fólk áttar sig ekki á því að það sé með einhvers konar vímuefnavanda. Það er kannski helsta vandamálið fyrir utan að glíma við vanda þeirra sem eru langt leidd. Ég held t.d. að úr þeim grunnskólabekk sem ég var í sé ég sá eini af strákunum í hópnum sem hefur ekki farið í meðferð. Kannski var það af því að ég byrjaði mun seinna að drekka, ég veit það ekki, kannski átti eitthvað menningarlegt þátt í því, ég fluttist í þorpið, var aðfluttur. En vandinn er það stór, það viðamikill, að heill árgangur stráka þarna hefur farið í meðferð. Einn sem kom til mín í þessu 12 spora kerfi, hluti af því var að biðjast fyrirgefningar, lýsti því einmitt fyrir mér að vandinn hjá honum væri ekki sá að hann væri róni eða eitthvað svoleiðis heldur að hann hefði orðið kærulaus þegar hann drakk og gerði þá ýmislegt sem hann hefði annars ekki gert, samt ekkert slæmt. Annar sem ég kannast við tæmir debetkortið sitt, fer í mínus. Hann er vingjarnlegur við alla, býður öllum upp á öl og er hrókur alls fagnaðar en þarna missir hann stjórn á sér í drykkjunni. Þetta er rosalega lúmskur sjúkdómur og það eru einkenni alkóhólisma, fíknar, að eiga í vanda með þessi efni og fólk áttar sig ekki á því að þetta er vandamál.