Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:13]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessari ágætu bók er saga. Hún segir frá manni sem á þrítugsaldri uppgötvaði það að hann réð ekki alveg við drykkjuna. Hann var í viðskiptum og hann ákvað að hætta að drekka og ætlaði ekki að byrja að drekka aftur fyrr en hann væri búinn að koma sér vel fyrir. Hann vann eins og þræll í 25 ár, var orðinn vel auðugur og fyrirmyndarþjóðfélagsþegn og þá hætti hann í vinnunni og settist í helgan stein og hélt að nú gæti hann byrjaði að drekka bara eins og í gamla daga. Til að gera langa sögu stutta þá settist hann niður og fékk sér huggulegt koníaksglas. Eftir tvo mánuði var hann kominn á spítala og innan tveggja ár var hann dáinn. Svona er þessi sjúkdómur slæmur. Ég heyrði í konu um daginn sem hafði verið oft í meðferð og hún hafði náð þeim árangri að vera edrú í sjö ár. Hún var komin með fjölskyldu, hún var komin með hús, bíl. Það var allt til fyrirmyndar. Svo lenti hún í því einhvern tímann að hún hitti einhverjar vinkonur sem hún hafði ekki hitt í mörg ár og þær vildu endilega fá hana með sér í gleðskap og hún sagði: Ég hélt að ég gæti bara dottið í það eina helgi og komið svo aftur. Þessi helgi stóð í fimm ár. Svona er þetta hættulegt og menn ráða ekkert við sig, því miður. Þess vegna er aldrei of mikið lagt til forvarnastarfa og í að meðhöndla þá sem nú þegar eru með þessa fíkn, því að það þarf hvoru tveggja. Ég horfi á krakkana í Hagaskóla, af því að ég var í Hagaskóla, og þegar ég horfi á dóttur mína, sem er 15 ára gömul, þá hugsa ég með mér: Vá, hún er til fyrirmyndar en ég var til skammar aðeins 14 ára gamall.