Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:16]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir góða ræðu og fyrir að vekja athygli á þeim skæða vanda sem alkóhólismi er. Mér þykir mikilvægt að hafa einhvern talsmann sem hér situr á þingi sem hefur reynslu af þessum sjúkdómi, eins leiðinlegt og það er. Það er alveg skelfilegt og ég vildi að hann byggi ekki yfir þessari reynslu en hann hefur þá bara betri innsýn inn í þetta málefni en við hin sem höfum ekki þurft að glíma við alkóhólisma. Ég staldraði svolítið við þann hluta í ræðunni hjá hv. þingmanni þegar hann kom inn á Vog, meðferðarheimilið þar. Ég er sammála hv. þingmanni að þar er rosalega mikilvæg starfsemi í gangi og það er aldrei lagður nógu mikill peningur í forvarnastarf. Eins og ég hef sagt í fjárlagaræðunum mínum ætti að leggja meiri áherslu á forvirkar aðgerðir í stað þess að reyna að sneiða hjá vandanum með því að fjármagna eitthvað sem ræðst ekki að rót vandans. En mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því hann er með betri innsýn inn í þetta en ég, hvort aðstaðan og þjónustan inni á Vogi væri nógu vel fjármögnuð og hvort það væri e.t.v. eitthvað sem löggjafarvaldið gæti lagt til til þess að bæta þá þjónustu, og svo stöðugildi sálfræðinga og stöðugildi hjúkrunarfræðinga og hvort það sé geðhjúkrunarfræðingur þarna, bara hvort hv. þingmaður hafi einhverja innsýn inn í hvað gæti vantað upp á á Vogi, annað en að stytta biðlistana, sem löggjafarvaldið hér gæti bætt.