Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:18]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm Lenyu Rún Taha Karim fyrir andsvarið. Talandi um Vog þá fara þar í gegn nánast 2.300 á ári, á venjulegu ári, Covid-tímabilið er svolítið undanskilið í þeim tölum. Það hefur verið greitt fyrir í kringum 1.600 einstaklinga þannig að það vantar upp á fyrir 700–800 sjúklinga sem eru teknir í gegn og Vogur þarf þá að útvega sér peninga til að fjármagna það á annan hátt. Af þessum 2.300 eru 500–600 að koma í fyrsta skipti. Það eru þeir sem eru að byrja, allir hinir eru að koma í annað skipti, þriðja skipti, fjórða, fimmta og sumir í 20. skipti. Fólk hefur sagt: Er þetta ekki bara sjálfskaparvíti hjá þeim sem eru að koma í fjórða, fimmta, tíunda eða tuttugasta skipti? En það eru bara þeir sem eru miklu veikari en þeir sem eru að koma í fyrsta skipti því að þeir eru bara að byrja sinn feril, í flestum tilfellum, þó að sumir séu kannski svolítið illa farnir þegar þeir koma í fyrsta skipti.

En til að svara spurningunni um þjónustuna á Vogi þá fór ég á Silungapoll og síðan tveimur, þremur árum seinna til Ameríku á Edgehill sem var systurmeðferðarstöð Vogs. Ég fór þangað án þess að hafa dottið í það því að ég taldi mig þurfa einhverja uppörvun í þessu öllu saman en komst að þeirri niðurstöðu að SÁÁ er bara með jafn góða meðferðarstarfsemi og hún gerist best í Ameríku. En ég ætlaði að segja ykkur (Forseti hringir.) að þegar ég fór á Silungapoll þá voru bara menn sem hafði runnið af og einn eða tveir læknar og búið. Núna eru komnir alls kyns læknar og alls kyns sérfræðingar og vel lært fólk og sálfræðingar (Forseti hringir.) og félagsfræðingar, þannig að þetta er allt í rétta átt þó að það megi alltaf bæta við.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)