Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:20]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni, 9. þm. Reykv. n., fyrir svarið og fyrir að gefa mér góða innsýn inn í starfsemi SÁÁ og aðstöðuna sem er í boði á Vogi. Það gleður mig rosalega mikið að heyra að það sé bara allt í góðu þarna. En ég hef líka verið að pæla í þessum stóra biðlistavanda sem við erum að glíma við í velferðarkerfinu, ekki bara þegar kemur að meðferðarheimilum eða meðferðarúrræðum heldur líka þegar kemur að alls konar greiningum sem börn þurfa að fara í. Ég er að pæla, ef við ráðumst á þessa rót vandans og styttum biðlista þegar fólk er að bíða eftir sálfræðiþjónustu, eftir ADHD-greiningu, eftir ég veit ekki hverju, eftir læknisskoðun, þá gætum við mögulega verið að nota einhverjar forvirkar aðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í alkóhólisma til að byrja með. Ég veit ekki það mikið um þennan sjúkdóm að ég geti talað um hluti til að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í þetta til að byrja með af því að fíknisjúkdómur er bara fíknisjúkdómur, þú ert bara haldinn þessu, en það er náttúrlega hlutverk okkar á Alþingi að sjá til þess að þjóðin sem veitti okkur umboð til að sitja á þingi hafi það sem best. Því finnst mér þetta undir okkur komið, að við veltum við öllum steinum og hugsum til framtíðar, hugsum hvernig við gætum bætt kerfi okkar til þess til að reyna að sjá til þess að ekki jafn margir þurfi á þeirri aðstoð að halda sem er í boði á Vogi. Er eitthvað sem við gætum gert til að bæta líf fólks, grípa það áður en það þarf að fara inn á Vog, áður en það þarf að fara í meðferð? Ætti að vera eitthvert millistigsmeðferðarúrræði í boði áður en fólk þarf að fara í innlögn og afeitrun? Erum við hreinlega of sein að grípa fólk?