Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:23]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta er vandamálið, fólk áttar sig ekki á því á hvaða vegferð það er. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði áðan er hann eini einstaklingurinn úr sínum bekk sem ekki hefur farið í meðferð. Ég byrjaði að drekka 13 ára gamall og ég spurði dóttur mína um daginn hvort fólk væri að drekka í skólann og hún sagði: Það er mjög lítið. Það kom mér á óvart. Þó svo að núna séu einhverjir árgangar sem drekka minna en t.d. þegar ég var ungur er ekki þar með sagt að búið sé að ná tökum á vandamálinu. Það þarf stöðugt að vera að hamra á því. Þó svo að þetta virðist á einhverjum tímapunkti vera á uppleið þá er það enga stund að hverfa eins og dögg fyrir sólu ef ekki er endalaust verið að hamra á forvörnum og annarri slíkri starfsemi sem gerir það að verkum að fólk drekkur minna. Eins og kom fram hérna um daginn er stríðið við fíkniefni tapað og þetta er bara spurning um hvernig við getum haldið utan um það og haldið því í skefjum.