Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi það hvort við eigum að vera duglegri að innleiða tilskipanir EES eða ekki þá tel ég að við eigum að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum eins og var samið um á sínum tíma. Samningurinn var undirritaður 1992, hann gekk í gildi í ársbyrjun 1994. Það sem er búið að gerast á þessum tíma er samrunaþróunin. Þetta er tveggja hliða samningur milli EFTA-ríkjanna og ESB og það sem er búið að gerast öðrum megin í samningnum er að það er búið að auka samrunaþróunina alveg gríðarlega. Lissabon-samkomulagið er komið, Amsterdam-sáttmálinn, Nice-sáttmálinn og fleiri sáttmálar sem hin ríkin hafa greitt atkvæði um en ekki EFTA-ríkin. Lissabon-samkomulagið er þar undir varðandi orkumálin. Við höfum ekki verið að standa okkur neitt sérstaklega vel í því að innleiða tilskipanir ESB til annarra ríkja. Við erum svona sæmilega dugleg við það. Það er búið að vera átak í gangi á undanförnum árum. Varðandi loftslagstilskipunina þá eigum við að sjálfsögðu að gera það. ESB er með mjög metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og við eigum að reyna taka þátt í því og innleiða tilskipanir sem best við getum ef þær eru hluti af EES-samningnum. Ef þær eru ekki hluti af EES-samningnum þá eigum við ekki að gera það. Þá eigum við bara að reyna að standa við Kyoto-sáttmálann sem við erum skuldbundin og Parísarsamkomulagið sem við erum líka skuldbundin. Við virðumst ætla að standa við hvorugt. Varðandi þessi markmið, að við ætlum alltaf að vera best í heimi, þá sýnir raunveruleikinn annað, raunveruleikinn sýnir að við erum það ekki. Ég tel að það sé sjálfsagt að innleiða tilskipanir ESB sem okkur ber að gera en það er aðallega þannig í loftslagsmálum að við eigum að vinna heimavinnuna á okkar forsendum, gera það sem við teljum best og hafi mest áhrif. Það er það sem skiptir máli. En ég sé bara enga áætlun um það. Jú, við förum í orkuskipti, það er gott og blessað. En það er líka margt annað sem við getum gert. Við getum t.d. á alþjóðavísu hætt að selja upprunaábyrgðir til Evrópusambandsins þar sem við erum að hjálpa ríkjum ESB að menga og það kemur líka í veg fyrir að þeir sem eru að framleiða vistvæna orku geti keppt, þeir eru að keppa við upprunavottorð frá Íslandi sem eru ódýr.