Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir seinna andsvarið. Það er verið að selja upprunaábyrgðir frá á Íslandi. Landsvirkjun fékk í fyrra eða hittiðfyrra 600 millj. kr. fyrir þetta. Þetta er hundruð milljóna króna bisness á Íslandi. Á pappírunum eru 87% af raforku á Íslandi, sem við erum að nota í dag, upprunnin frá kjarnorku og kolefnum vegna þess að það er búið að selja upprunann til fyrirtækja í Evrópu sem skreyta sig með fjöðrum frá Íslandi og segja: Við erum að nota raforku frá Íslandi í okkar framleiðslu. Hvað þýðir það? Jú, við erum að hjálpa ESB að menga. Þeir eru í raun að nota raforku sem er búin til úr kjarnorku eða kolefnum, raforka þeirra kemur þaðan, en segja síðan, af því að þeir eru búnir að kaupa upprunavottorðin, þetta er eins og að kaupa einhvern andlitsmaska, að þeir noti orku frá Íslandi. Á sama tíma eru fyrirtækin sem eru að selja umhverfisvæna raforku að keppa við þessi upprunavottorð. Það er mjög óhagstæður leikur.

Varðandi tengsl upprunaábyrgða við loftslagsmálin þá er þannig búið um hnútana að þó svo að 87% af raforku á Íslandi séu á pappírunum framleidd með kjarnorku og kolefnum þá hefur það ekki áhrif á loftslagsmálin. Það fylgir ekki með, kolefnisútblásturinn af framleiðslu rafmagnsins. Hvernig það er gert þá er það bara þannig í alþjóðasamningum og ESB sér um það, þeir geta verslað með upprunaábyrgðir. Ísland framleiðir 100% af raforku sinni umhverfisvænt, úr fallvötnum. Þetta á að vera hvatning fyrir ríki að fara úr kjarnorkuframleiðslu á raforku og kolefnisframleiðslu á raforku yfir í umhverfisvæna framleiðslu en við þurfum ekki þessa hvatningu. (Forseti hringir.) Ég vil meina að þetta sé ólöglegt gagnvart Íslandi en það hefur bara ekki reynt á það frammi fyrir dómstólum. (Forseti hringir.) Það væri illa tengdur dómari sem myndi dæma að þetta væri lögleg sala vegna þess að Ísland er ekki að selja inn á raforkukerfi ESB. (Forseti hringir.) Við seljum hins vegar upprunaábyrgðir þangað, en raforka fylgir ekki upprunaábyrgðunum. Það er stóra málið.