Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég náði ekki alveg að ljúka því sem ég ætlaði að ræða í síðustu ræðu varðandi orkuskiptin. Ég tek upp þráðinn hér um bil þar sem ég lagði hann frá mér áðan. Þetta snerist um hversu furðulegt það væri að það virtist sem svo að ákvarðanir stjórnvalda á síðustu árum varðandi orkuskipti hefðu verið framkvæmdar án djúprar greiningar á skilvirkni aðgerðanna. Þetta varð okkur dálítið augljóst þegar Orkustofnun opnaði á dögunum aðgang fyrir almenning á vefnum að því sem hún kallar orkuskiptalíkan, þar sem sérfræðingar stofnunarinnar eru búnir að safna saman öllum helstu breytum varðandi losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum og stilla síðan upp valmöguleikum fyrir notendur, herða róðurinn í þessu eða skipta þessu eldsneyti út fyrir hitt, svo hvert og eitt okkar geti sett fram sína eigin framtíðarspá.

Þetta er alveg ofboðslega fróðlegt vegna þess að það dregur bæði svo skýrt fram hversu langt stjórnvöld eru frá því að ná eigin markmiðum og líka hversu seigt er í kerfinu með marga þætti. Þó að maður leiki sér í kerfinu að keyra allar breytur í eina átt þá tekur samt langan tíma að hreinsa losun gróðurhúsalofttegunda úr kerfinu vegna þess að svo mikil fjárfesting er bundin í samfélaginu sem mun menga næstu ár og jafnvel áratugi. Við þurfum ekkert að nefna álverin sem munu halda áfram að spýja koltvísýringi í einhverja áratugi en horfum bara á venjulegan einkabíl. Bensínbíll sem fer á götuna í dag mun eiginlega örugglega vera á götunni 2030 þegar kemur að uppgjöri Parísarsáttmálans. Það að bæta einum bensínbíl á götuna í dag þýðir að það verður einum fleiri bensínbíll að gera stjórnvöldum 2030 lífið leitt og auka losun Íslands. Það er bara rosalega stór og afdrifarík ákvörðun að missa bensín- eða dísilbíl inn á kerfið í dag.

Þegar við skoðum hvaða kerfi hefur verið komið upp til að hvata þessum orkuskiptum þá ber það ekki með sér að verkefnið sé jafnbrýnt og það augljóslega er. Ívilnanir eru til kaupa á bílum sem ganga fyrir rafmagni en það er t.d. ekki búið að fjárfesta nógu mikið í almenningssamgöngum eða hjólreiðum, miklu ódýrari fjárfestingu sem skilar raunverulegum orkuskiptum í formi breyttra ferðavenja. Síðan er verkefnið líka mun stærra en það virkar ef við skoðum núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda, sem vel að merkja hefur ekki verið uppfærð í takt við aukinn metnað úr 40 upp í 55% samdrátt í losun.

Ef við skoðum markmið varðandi samgöngur á landi þá er markmiðið í aðgerðaáætluninni að fara úr losun ársins 2005, sem var 776.000 tonn, niður í 615.000 tonn árið 2030. 161.000 tonna samdráttur á þessu tímabili hljómar viðráðanlega en vandinn er að í millitíðinni hefur bílum fjölgað svo mikið og akstur aukist, svo losunin hefur aukist upp í 950.000 tonn. Í staðinn fyrir að bitinn sem ríkið þarf að bíta sé 161.000 tonn yrði hann 355.000 tonn. Það er punktstaðan í dag. Við þurfum að ná því fyrir 2030, bara til að uppfylla gömlu aðgerðaáætlunina.

Samhliða útgáfu orkuspálíkans Orkustofnunar léku sérfræðingar hennar sér af því að setja inn aðeins metnaðarfyllra markmið varðandi orkuskipti á landi. Það var mjög raunhæft markmið vegna þess að þeir settu inn þau viðmið sem Noregur setur sér varðandi t.d. nýskráningarhlutfall bifreiða. Varðandi fólksbíla, bílaleigubíla og sendiferðabíla þá miðar módelið við 100% nýskráningarhlutfall árið 2025 en ekki 2030 eins og er hér á landi, 50% fyrir hópferða- og vöruflutningabíla fyrir árið 2030 og að það verði 10% íblöndun lífeldsneytis fyrir 2030. Þá sprettur úr líkaninu árangur sem við gætum verið ánægð með og myndi rúmast innan þeirra markmiða sem stjórnvöld hafa sett sér, ólíkt því sem núverandi kerfi ívilnana býður upp á.

Þetta nefni ég vegna þess að í fjárlögum núna er einfaldlega ekki sú sýn á kerfi á næsta ári sem mun tryggja þessa framkvæmd. Það munar kannski einna helst um bílaleigurnar. Það var dálítið skondið að þegar fólkið hjá Orkustofnun var að kynna verkfærið — þetta er í raun bara reiknilíkan, en líka er hægt að líta á þetta sem risastórt excel-skjal svo að fólk tengi þetta einhverju sem það notar dags daglega — og spár um fjölgun ferðamanna voru færðar inn í reiknilíkanið þá sprengdi það af sér öll bönd. Ferðaþjónustan hefur vaxið svo gríðarlega og er orðin svo ráðandi á eftirmarkaði með bifreiðar að það vantar íbúa í landinu til að geta keypt nógu marga notaða bíla svo bílaleigurnar geti selt þá frá sér.

Orkuskipti hjá bílaleigum skipta nefnilega höfuðmáli þegar kemur að því að ná markmiðum varðandi samdrátt í losun frá samgöngum á landi vegna þess að bílaleigurnar eru ein stærsta uppspretta notaðra bíla sem fólk leitar til, sem t.d. hefur ekki ráð á að kaupa sér glænýjan bíl beint úr kassanum. Þess vegna skiptir svo miklu máli að ná orkuskiptum í þeim geira svo að þau skili sér inn á almennan markað þremur árum seinna eða svo. Þau hefðu auðvitað átt að nást miklu fyrr en því miður hafa verið stigin röng skref í þeim málum á síðustu árum. Rifjum t.d. upp að ívilnun til kaupa á nýjum tengiltvinnbílum átti að renna út 2020, ef ég man rétt, og full ívilnun var framlengd um ár samkvæmt ákvörðun efnahags- og viðskiptanefndar á tíma þegar tengiltvinnbílar þjónuðu ekki þeim tilgangi að vera hagkvæm orkuskiptaleið miðað við það kerfi sem var komið hér á landi. Síðan, þegar kom að því að fá bílaleigurnar til að standa sig betur, var búið til kerfi við afgreiðslu fjárlaga þar sem bílaleigur fengu niðurgreiðslu á bensínbílum upp á 400.000 kr. gegn því að kaupa ákveðið hlutfall hreinorkubíla. Þar er dálítið verið að smyrja hjólin, að niðurgreiða bensínbíla til að bílaleigur myndu kaupa hreinorkubíla. Nú er verið að bjóða þeim milljarð í viðbót til að auka innleiðingu hreinorkubíla en ég spyr mig, frú forseti: Er ekki kominn tími til að hætta þessu og fara einfaldlega að setja skýr markmið um að bílaleigum verði bannað að kaupa bensínbíla, segjum 2025? Síðan fari í gang eitthvert samtal við þær um hvernig best væri að láta það ganga upp, t.d. með því að ríkið stígi inn og hjálpi til við kynningarátak á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn (Forseti hringir.) sem vilja prófa að taka þátt í umferð þar sem orkuskipti hafa tekist 100%. Það væri sölupunktur sem myndi ganga vel.