Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ræðu sína. Hann talaði um orkuskiptin eingöngu, ekki bara að stórum hluta eins og í gær. Hann talaði um einkabílinn og það er alveg ljóst að rafbílavæðing skilar sér bara til millistéttar og efri millistéttar, aðrir hafa ekki efni á að kaupa svo dýra bíla. Hin sem tilheyra fátækari hluta samfélagsins hafa ekki efni á að kaupa rafbíla og mega ekki taka þátt í þessum orkuskiptum.

Hv. þingmaður minntist á bílaleigubíla og eftirmarkað með þá, að fólk gæti þá keypt notaða rafbíla. Veit hv. þingmaður til þess að verðið á þeim sé eitthvað sem aðrir en þeir efnameiri í samfélaginu gætu ráðið við? Hafa þeir hópar efni á að kaupa rafbíla sem hafa verið bílaleigubílar og taka þá þátt í þessum orkuskiptum? Miðað við verðið á rafbílum finnst mér þessi orkuskipti varðandi bifreiðar vera þannig að einungis hluti samfélagsins geti tekið þátt í þeim.

Við viljum bera okkur saman við Noreg, en mér finnst bara vera himinn og haf á milli Noregs og Íslands hvað þetta varðar. Sem dæmi er Noregur þriðji stærsti markaður heims fyrir Tesla-bíla, 5,2 milljónir, meðan Kína og Bandaríkin eru stærstu markaðir heims. Það væri fróðlegt að heyra álit hans hvað þetta varðar. Varðandi það að ná markmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2030 miðað við 2025 þá virðumst við eiga gríðarlega langt í land. Ég nota kannski seinna andsvar til að spyrja nánar um það.