Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er náttúrlega lykilatriði varðandi orkuskiptin að þau séu réttlát og öllum aðgengileg og sú er alls ekki raunin í dag. Að hluta til er vandinn vegna þess að fólk hefur mögulega einblínt of mikið á dýrasta skrefið inn í orkuskiptin, sem er að kaupa nýjan fólksbíl, á meðan miklu hagkvæmari orkuskipti, bæði fyrir samfélagið og einstaklingana, væri að dæla peningum í almenningssamgöngur, uppbyggingu hjólainnviða og niðurgreiða reiðhjól og rafmagnsreiðhjól. Allt þetta myndi skila miklu fleiri tonnum í minnkaðri losun. Fyrir hverja krónu þarna værum við að græða miklu meira en fyrir hverja krónu í rafbílana.

Þeir eru samt hluti af lausninni og þess vegna þurfum við eitthvert kerfi til að taka á þeim, líka vegna þess að þeir eru áþreifanlegur hluti. Fólk sem er að taka þátt í orkuskiptum með því að eiga rafbíl finnur að það er að leggja sitt af mörkum til baráttunnar. Hins vegar, eins og hv. þingmaður nefnir — þetta er lykilatriði — þá sýna talnagögn t.d. að næstum helmingur allra ívilnana fyrir vistvæna bíla nýtast efstu tekjutíundinni þegar um einstaklinga er að ræða, næstum helmingur fer til tekjuhæstu tíundarinnar af einstaklingum. Augljóslega er þetta því ekki að nýtast öllum og því þarf að breyta. Um það höfum við rætt í þessum sal, t.d. varðandi ákveðna þrepaskiptingu í tengslum við ívilnanirnar, þannig að fjölskylda sem hefur efni á að eiga tvo bíla úti á hlaði og ætlar að fá sér rafbíl til viðbótar fær enga ívilnun. Ívilnunin væri full fyrir fyrsta bíl á heimili, hálf fyrir annan bíl og svo fjarar hún út eftir það. Við verðum að hugsa um alls konar svona til að bæði verði þetta sem hagkvæmast fyrir hið opinbera en líka sem réttlátast fyrir almenning.