153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra ellilífeyrisþega.

[15:13]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður hefur hér lagt fram breytingartillögu sem, eftir því sem ég best skil, gerir ráð fyrir því að 6.000 manns, sem verst eru settir af þeim sem eru í hópi ellilífeyrisþega, fái sams konar eingreiðslu núna í desember eins og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Það er tillagan eins og ég skil hana. Það sem er erfitt varðandi þá tillögu er hvernig við ætlum að ná utan um að skilgreina þann hóp sem er verst settur inn í kerfinu hjá okkur, svo ég taki nú bara tillöguna hingað til að reyna að skilja betur nákvæmlega hvaða hópur þetta er sem hv. þingmaður á við. Ég er ekki viss um að tillagan sé þannig fram sett að það sé hægt að framkvæma hana. En ég skil hv. þingmann þannig að hún brenni fyrir því og ég held að við brennum nú öll fyrir því að geta mætt fólki sem hefur lágar tekjur sér til framfærslu. Það var náttúrlega, svo ég fái nú að minna á það enn og aftur, hugmyndin með kerfisbreytingunni 2017, sem tók gildi þá og hefur skilað eldra fólki talsverðum ef ekki allmiklum kjarabótum og mestar hafa þær verið til þeirra sem minna hafa, akkúrat eins og við viljum hafa það. Ég vil líka minna á það að eingreiðsla örorkulífeyrisþega er greidd vegna þess að það er ekki búið að breyta örorkulífeyriskerfinu. Það er vinna sem er í fullum gangi hjá okkur núna líkt og búið er að gera fyrir ellilífeyrinn. Ég er að reyna að átta mig á tillögunni, svo það sé sagt, svo ég svari þingmanninum til að reyna að sjá hvaða hópur þetta gæti verið.