153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

eingreiðsla til bágstaddra ellilífeyrisþega.

[15:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni fyrir svarið. Mér er það afskaplega ljúft og skylt að útskýra einföldustu hluti í heimi. Þarna var tiltekinn ákveðinn fjöldi eldri borgara sem við vorum búin að fá upplýsingar um hjá Tryggingastofnun að væru þeir sem lökustu hefðu kjörin í kerfinu. Núna verður orðalagsbreyting í tillögunni því að þessi tala, 6.000, virðist vefjast ofboðslega mikið fyrir meiri hlutanum þannig að núna verður þetta einfaldlega orðað eins og þeir orða það sjálfir. Þetta verður eingreiðsla til þeirra sem eru eingöngu með óskertar greiðslur úr almannatryggingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Það er öllum í lófa lagið hjá Tryggingastofnun að sjá það á sínum pappírum og mun betur en bæði ég get séð það og hæstv. ráðherra. Þessi útreikningur og þessar greiðslur munu alfarið fara fram hjá Tryggingastofnun, fyrir þennan hóp eldra fólks sem við erum að berjast fyrir að fá eingreiðslu fyrir nákvæmlega eins og um hóp öryrkjanna.