Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar ríkisstjórnir undanfarinna ára bjuggu til almannatryggingakerfið, voru að prjóna það saman, gerðu þær mjög alvarlega garnaflækju í kerfið; þetta er svo gjörsamlega flækt kerfi að það er ekki hægt að rekja það upp. Ein af flækjunum í því er skerðingarflækjan og hér fáum við besta dæmið um hana. Ég ætla að styðja þetta mál, ég segi já í þessu máli. En ég ætla að segja við öryrkjana þarna úti: Passið ykkur, ekki fara inn í þetta nema að mjög vel athuguðu máli því að það er ómögulegt að segja hverjir ykkar fá skerðingar, hverjir ykkar tapa á þessu. Það eru einhverjir sem hafa hagnað af þessu en það er stór hópur sem á eftir að fara illa út úr þessu ef hann reynir að fara inn í þetta kerfi. Það er fáránlegt að þetta kosti milljarð vegna þess að þetta kostar ekki neitt, þetta er hagur ríkisins og sveitarfélaga sem fá útsvar og tekjuskatt. Það er enginn kostnaður. Það eina sem verið er að tala um með þennan milljarð er að þau spari sér útgjöld. Segjum þá rétt frá.