Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni hér á undan mér þá er verið að fresta fullri innleiðingu 172 NPA-samninga um tvö ár með frumvarpi frá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er verið að fresta fullu réttlæti fyrir tugi fólks sem á rétt á NPA-þjónustu um tvö ár hið minnsta. Ástæðan er sú að í dag ættu að vera í gildi 172 samningar samkvæmt núgildandi lögum. Þeir eru hins vegar bara rétt rúmur helmingur, eru 90 og eitthvað talsins. Þetta er vegna þess að einhvers staðar uppi í ráðuneytum ákveður fólk að láta fjárlög vera Alfa og Omega en horfa fram hjá sérlögunum sem eru um NPA-samningana. Takmarkandi þátturinn til þessa hefur verið fjárveiting af fjárlögum. Samhliða því að samþykkja þessa auknu fjárveitingu til að fjölga samningum frá þeirri smánarlegu tölu sem þeir eru í í dag þá þurfum við að samþykkja (Forseti hringir.) breytingartillögu á NPA-frumvarpinu til að það sé ljóst að það sé fjöldi þjónustuþega (Forseti hringir.) sem stýrir þessu en ekki rangt kostnaðarmat ráðuneytanna (Forseti hringir.) vegna þess að þjónustuþegunum er slétt sama hvað excel-skjalið uppi í ráðuneyti segir þegar þeir eiga rétt á þjónustunni.