Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er ekki skrýtið þótt það standi í stjórnarliðum að styðja fátækt fólk ef hugarfarið hjá þeim er eitthvað sambærilegt því sem hér kemur fram hjá hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur. Staðreyndin er sú að þetta er sett fram á svipaðan hátt eins og síðast þegar þingheimur greiddi ríflega 32 millj. kr. til hjálparstofnana. Þá var það á hendi hæstv. ráðherra að deila því niður á hjálparstofnanir. Við erum ekkert að tala um kvenfélög, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, við erum að tala um hjálparstofnanir sem eru að útdeila reglulega matargjöfum fyrir fátækt fólk sem stendur í röðum. Ég veit ekki um eina einustu kvenfélagsstofnun á landinu þar sem er biðröð með fjölskyldum sem eru að biðja um mat, ekki eina einustu. Þetta er Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands og ég skora á hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur að kynna sér málin. Hjálparsamtök á Íslandi eru búin að lýsa því yfir, bæði í Kastljósi á sunnudaginn var og núna í hverju einasta viðtali, að aldrei nokkurn tíma hafi verið eins sár og mikil þörf fyrir aðstoð um jólin eins og nú.