Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hérna upp til að minna á það að árið 2016 fékk lögreglan 150 millj. kr. fjárframlag til þess að festa kaup á tækjum eða tækjabúnaði a.m.k. og hluti af því átti að vera að færa eftirlitskerfi lögreglu, þ.e. kerfið sem lögreglan notar til að hlera almenna borgara og grunaða glæpamenn og til að vakta jafnvel heimili fólks, inn í LÖKE-kerfið þannig að ríkissaksóknari geti fylgst með því að lögreglan standi rétt að sínum hlerunum, eyði gögnum þegar búið er að nota þau, tryggi að það sé aðgangsstýring á þessum gríðarlega viðkvæmu persónugögnum, þessari innrás í einkalíf fólks og að viðkomandi sé tilkynnt að hann hafi sætt hlerun þegar henni er lokið. Til þess að gera langa sögu mjög stutta þá hefur þetta ekki enn verið gert, þetta hefur enn ekki verið fært inn í LÖKE-kerfið. Ég geld varhug við í rauninni öllum heimildum til þess að lögreglan geti keypt einhvern tækjabúnað þegar hún notar ekki heimildirnar til þess sem þær voru ætlaðar.