Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er mjög óvenjulegt að vera í atkvæðagreiðslu um fjárlög, það er þó nokkuð erfitt, verð ég að segja, í þessum litla þrönga sal og fylgja eftir öllum skipunum forseta um hvað er verið að gera fram og til baka og hlaupa upp í atkvæðaskýringar og ýmislegt svoleiðis. Venjulega, þegar um atkvæðagreiðslur í 2. umr. um fjárlög er að ræða, þá er ekkert meira á dagskrá eftir það. Fólk þarf einfaldlega að anda smá. Við fengum smá pásu til þess að hlaupa inn í matsal en um leið og voru komnir einhverjir í röðina þá myndaðist löng röð alveg inn úr skála og inn í gamla húsið, eiginlega þannig að það komust ekkert allir í mat akkúrat þá. Óháð því þá er atkvæðagreiðsla um fjárlög, ég veit að fólk hér úti áttar sig ekki á því nema hafa prófað það, ekkert grín, langt frá því að vera auðvelt verkefni. Ég myndi mæla með því við forseta að hugsa aðeins um það. Við erum ekki lengur með þetta karllæga samfélag þar sem er einhver fyrirvinna, alltaf einhver heima sem nær að sinna öllu, fólk hefur fjölbreyttari verkefni með höndum í dag.