Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[21:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg klárt mál hvað ársreikningar eru, þ.e. annars vegar rekstrarreikningur, sem er yfirlit yfir tekjur og gjöld, og hins vegar efnahagsreikningur, sem er yfirlit yfir eignir og skuldir. Þessir tveir reikningar, rekstrarreikningur og efnahagsreikningur, eru ársreikningur. Mér fannst vanta aðeins inn í skýringar á 7. gr., ég var að skoða þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða skil á rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggð á skattframtali félagsins í gegnum vef Skattsins með „hnappnum“.“

Mér finnst varla boðlegt að vera með svona útskýringu á 7. gr. Ég skil alveg hvað er í gangi en það er einhver hnappur þarna sem er innan gæsalappa í skýringu við þessa grein, mér finnst ekki boðlegt að verið sé að skýra þetta út með einhvers konar gæsalöppum, það verður að fara vel yfir það hvað verið er að gera þarna. Ef hægt er að vinna frekari gögn út úr þessum upplýsingum sem koma þegar skil eru í gegnum vef skattsins með hnappnum, höfum það bara á hreinu, þá er það mjög ánægjulegt. Það er frábært að hægt sé að vinna gögn úr því þótt um lítil fyrirtæki sé að ræða. En ég tel ekki boðlegt að stórfyrirtæki fari að nota skil á ársreikningi með hnappnum hjá Skattinum. Mér finnst það bara ekki boðlegt, það þarf að útskýra það frekar.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að þetta nái líka til fyrirtækja en ekki með þessu fyrirkomulagi sem lýtur að örfyrirtækjunum. En það þarf að skilgreina þetta miklu betur en þarna er gert og það þarf líka að taka fram að pdf-formið er mjög takmarkað og þá þarf að koma fram hvaða form það er sem á að skila á. (Forseti hringir.) Þessi upplýsingaöflun þarf að vera skilgreind fyrir fram, hvað má taka út úr þessum framtölum og hvað ekki og úr ársreikningunum.