Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:05]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða yfirferð. Það virðist ekki vera að margt athugavert sé fundið við þetta fyrirkomulag um rafræna hluthafafundi. Mig langar að lesa úr minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins:

„Viðskiptaráð leggur þó til að umræddar breytingar sem lagðar eru til í 1.–3. gr. frumvarpsins taki til allra hlutafélaga en ekki eingöngu til félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði. Vísar ráðið til þess að samkvæmt 80. gr. a laga um hlutafélög sé öllum hlutafélögum heimilt að halda hluthafafundi rafrænt og því sé ekki rétt að takmarka þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu við félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði. Telur ráðið að framangreindar breytingar gagnist hlutafélögum hvort sem þau eru skráð á markað eða ekki.“

Í umsögn SFF og SA stendur:

„Í samráðskafla frumvarpsins kemur fram að ráðuneytinu hafi borist athugasemd SFF og SA um ákvæði 1. gr. í opnu samráðsferli vegna frumvarpsins en að ráðuneytið telji rétt að takmarka ákvæðið við skráð félög þar sem um ákveðnar takmarkanir á réttindum hluthafa er að ræða en framangreindum félögum sé mikilvægt að hafa svigrúm til að undirbúa skráningu hluthafa á hluthafafund, einkum þeirra hluthafa sem búsettir eru erlendis, taka þátt í hluthafafundinum rafrænt …“

Mig langar bara að spyrja: Sér hv. þingmaður einhverja galla við rafræna hluthafafundi eða er þetta bara allt jákvætt eins og þessar umsagnir virðast bera með sér?