Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:14]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir efnismikla ræðu, hún hefur greinilega kynnt sér málið mjög vel og fór vel yfir það að mörgu leyti. Mér fannst mjög áhugavert það sem hún var að segja um 1. gr. sem er breyting á 8. gr. laganna, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilt að kveða á um það í samþykktum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn. Sá frestur skal þó eigi vera lengri en ein vika. Fundarboð skal innihalda upplýsingar um skráningardag. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur.“

Hérna er verið að skylda hluthafa til að tilkynna það að hann ætli að mæta á hluthafafund. Ég var að skoða núgildandi löggjöf, lög um hlutafélög, nr. 32/1978, og í frumvarpinu sem varð að þeim lögum var í 3. mgr. 60. gr. lagt til að félagi yrði veitt heimild til að kveða á um það í samþykktum að hluthafi yrði að tilkynna þátttöku á hluthafafundi innan ákveðins tíma fyrir fund sem ekki skyldi vera lengri en þrír sólarhringar ef hann vildi tryggja rétt sinn til fundarsetu. Þetta var fellt út í neðri deild. Ég var að skoða nefndarálit neðri deildar á sínum tíma og þar kemur fram að þetta sé fellt út vegna þess að það fæli í sér of mikla skerðingu á rétti hluthafa. Ég hef ekki fundið nein önnur rök, bara sagt að þetta sé of mikil skerðing. Ég tek sem dæmi að í skandinavískum lögum á þessi skylda, að hluthafi tilkynni sig, eingöngu við um aðalfundi, ekki hluthafafundi. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að við séum að ganga jafnvel of langt miðað við hvaðan við erum að koma, miðað við norræna löggjöf.