Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:59]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst mjög athyglisvert það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði þegar hann var að tala um rafræn skil og hvað væru rafræn skil. Þegar hann sagði að pdf-skjal væri ekki rafræn skil þá verð ég að viðurkenna að það vakti mig nú bara til umhugsunar, hvort rafræn skil séu bara það sem hægt er að senda í tölvupósti, hvort það flokkist í raun undir rafræn skil. Ég held að við séum mjög mörg þar. Ég verð að viðurkenna að þetta vakti mig til umhugsunar því auðvitað eru það ekki rafræn skil í rauninni. Það er bara önnur tegund af pappír þar sem þú ert með skjal sem er ekki gagnvirkt á nokkurn einasta hátt. Ég fór að velta fyrir mér að þú átt að geta verið með eitthvað sem er í rauninni lifandi skjal, má segja, sem þú ert að vinna í þangað til að þú lokar því og skilar því inn. En fram að því er það lifandi skjal og þú getur notað til þess að vinna í, til að sækja upplýsingar. Í staðinn fyrir að þú værir með pdf-skjal þar sem þú þyrftir að fara og fletta í gegnum langan bunka og leita að hinu og þessu þá getur þú látið ákveðin forrit bara gera þetta fyrir þig og svo skilað út frá því. Það er hægt að sækja upplýsingar beint og það minnkar hættuna á villum, í staðinn fyrir að þurfa að ná í þær og skrifa og skrá þær upp á nýtt sem eykur hættuna á vitleysum og öðru. Er þetta rétt skilið hjá mér, er ég að skilja þingmanninn rétt með þessu sem ég er að segja hérna? Og er rétt skilið hjá mér að það að skila inn pdf-skjali séu hreinlega ekki rafræn skil?