Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:28]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir svarið. Þetta er reyndar mjög áhugaverður punktur. Í fyrri ræðu minni um þetta lagafrumvarp þá benti ég á — hv. þingmaður er reyndar að tala um hluthafafund en ég var að tala um aðalfund og það sem segir í 3. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. 88. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

Til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund.“

Þarna vil ég meina að þessi rammi sem er gefinn til að boða fund stuðli að gagnsæi og góðri upplýsingagjöf til hluthafa, af því að það þurfa að liggja fyrir ákveðin gögn áður en fundur er boðaður og áður en það kemur til fundar, eins og t.d. ársreikningar og þess háttar, það fer eftir því hvort það er aðalfundur, aukafundur, hluthafafundur. En ef við erum með einhvern sérstakan tímaramma og innan hans þarf að boða til fundar, það fer aðallega eftir samþykktum félagsins, en ef það er eitthvað stórt að gerast á þeim fundi þá þurfa allir hluthafar eða fundarmeðlimir að fá þessi gögn sem verða rædd á þessum fundi innan þess ramma. Ég held að það stuðli að mjög miklu gagnsæi. En það þarf bara að framkvæma þetta rétt. Ég vil líka meina að þetta þurfi ekki endilega að vera á skipulegum markaði og svo kom ég líka inn á það að þetta lagafrumvarp er takmarkað við skráð félög en skráð félög eru náttúrlega ekki einu félögin sem halda fundi. En ég kem bara inn á það í seinni ræðu minni og ég væri endilega til í að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þessar pælingar.