Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt orðið þannig núna, m.a. út af því frumvarpi sem ég flutti og var samþykkt fyrir nokkrum árum. Við getum farið inn á fyrirtækjaskrá, náð í ársreikninginn, það kostar ekki neitt og fáum þessar upplýsingar. Fjölmiðlar þurfa einmitt sérstaklega að hafa frían aðgang að þessum upplýsingum því að oft var ekki hægt að vinna ákveðnar fréttir, ákveðnar upplýsingar, fréttir um fyrirtækjasamstæður þar sem eignarhald var að flakka til og frá, af því að það kostaði kannski 50.000 kr. að ná í þessi gögn fyrir eina frétt. Þá varð sú frétt ekki til.

En hv. þingmaður var einmitt að tala um uppfærsluna. Þá mundi ég eftir upphafi ræðunnar sem var um hversu oft þessi lög hafa verið uppfærð. Einu sinni á hverju einu og hálfu ári, minnir mig að það hafi verið. Það segir okkur að þetta er mjög kvikt umhverfi. Það er mjög mikið af breytingum í fyrirtækjaumhverfinu sem krefur okkur í rauninni um að elta þær breytingar. Þetta eru bæði tæknibreytingar og svindlbreytingar sem þarf að loka fyrir o.s.frv. Það er dálítið vandamál. Við reynum alltaf að búa til kerfi sem virkar fyrir allt en mannveran er svo rosalega dugleg að reyna að finna einhverjar leiðir til að komast fram hjá því og gera hlutina á skilvirkari hátt, sem er þá kannski tæknilega séð orðinn ólöglegur háttur. Þá þarf að búa til nýjar girðingar sem gera kerfið alltaf flóknara og óskilvirkara fyrir alla hina sem haga sér á heiðarlegan hátt. Þetta minnti mig á að þetta eru líklega ein af þeim lögum sem hafa verið vel uppfærð efnislega miðað við kvikt umhverfi og samfélagslegar breytingar.