Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni yfirferðina þar sem var komið ansi víða við, enda kannski ekki af litlu að taka. Það sem mig langar að spyrja þingmanninn að fyrst er eitthvað sem við þekkjum kannski úr ýmissi annarri vinnu sem við vinnum hér á þingi. Það er hvernig tekið er á umsögnum sérfræðinga utan úr samfélaginu. Það er ekki stærsti skjalastaflinn sem fylgir þessu máli miðað við mörg sem við fáum til okkar. Umsagnir bárust frá Viðskiptaráði og Samtökum fjármálafyrirtækja, enda eru þeir aðilar sem búa yfir sérþekkingu á þessu sviði kannski fáir. Þetta er lítill hluti samfélagsins. En mér finnst svo áhugavert hvernig er farið með þeirra athugasemdir vegna þess að það eru nokkuð skýr rök, finnst manni, færð fyrir því að í 1. gr. frumvarpsins eigi eitthvert sambærilegt regluverk að eiga við um hlutafélög sem ekki eru skráð á markað eins og hér er lagt til að eigi við um skráðu félögin. Þetta er afskrifað í minnisblaði ráðuneytis þar sem er farið yfir umsagnirnar, sem við erum farin að fá æ oftar inn í mál nánast án raka, finnst manni. Það er bara sagt að það sé mjög líklegt að það yrði meira takmarkandi fyrir hluthafa í óskráðum félögum vegna þess að þar þurfi að sópa saman öllum gögnum fyrir aðalfundi. Ég velti fyrir mér: Ef þetta er takmarkandi fyrir þá hluthafa getur það ekki líka verið takmarkandi fyrir hluthafa í skráðu félögunum að setja þessar reglur á þann hóp? (Forseti hringir.) Og er þetta ekki orðinn bölvaður ósiður að taka þessi sjónarmið ráðuneytisins gagnvart umsögnum og segja: Jú, þetta er ekki (Forseti hringir.) sérstaklega vel rökstutt og við rökstyðjum það ekki sérstaklega sjálf, en við tökum undir þetta.