Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir síðara andsvar. Þetta var náttúrlega snilldarniðurlag. Að sjálfsögðu væri best að við gætum, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson benti á, bara ýtt á takkann enda er tölvutæknin orðin slík og þvílík að það ættu ekki að vera nein vandræði með gögnin. Þetta er allt saman skráð rafrænt „anyway“ — afsakið, forseti, að ég skyldi sletta hérna aðeins — hvort heldur sem er. Það ætti ekki að vefjast fyrir neinum að ná í gögn án nokkurs fyrirvara því það á náttúrlega að halda utan um þetta jafnóðum. Það á ekki að þurfa að reyna að moka þessu upp löngu seinna eða eitthvað slíkt og elta ólar við það. En þetta frumvarp skiptir okkur máli og það á að ríkja jafnræði með hlutafélögum hvort sem þau eru skráð á markað eður ei. Það á að ríkja gegnsæi og það á alltaf að vera hafið yfir allan vafa að hlutirnir séu eins vel unnir og faglega og kostur er þannig að okkur á öllum að geta liðið vel með það, alveg sama hvaða löggjöf kemur frá okkur héðan, frá hinu háæruverðuga Alþingi. Hún á að vera til fyrirmyndar og hafin yfir allan vafa um það að hún sé unnin af fagmennsku og eins vel og kostur er.