Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:28]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, hin stafræna bylting eða stafræna umbreyting sem við erum að ganga í gegnum — það halda rosalega margir að það sé nóg að breyta því þannig að í staðinn fyrir að koma með pappír þá sendir þú pdf, það sé stafræn umbylting. Það er ekki svo einfalt. Við getum bara ímyndað okkur hvernig það hefði verið, ef við horfum til baka þegar Skatturinn var að byrja með persónulegu framtölin, ef hann hefði sagt: Í stað þess að skila pappírsforminu þá geturðu fyllt þetta út, skannað inn fyrir okkur og sent það inn sem pdf. Það hefði ekkert sparast við það annað en bara að skanna það vegna þess að einhvers staðar þurfti einhver að sitja og slá inn allar þessar upplýsingar. Það er einfaldlega ekki stafræn umbylting. Það er verið að búa til stafrænt eintak af gögnunum en ekki í rauninni búa til gögnin sjálf. Þess vegna þurfum við, rétt eins og við gerðum þegar við fórum í gegnum það að gera persónulegu framtölin stafræn, að gera þetta í gegnum eitthvert forrit, væntanlega í gegnum hin mismunandi bókhaldsforrit, nákvæmlega eins og við gerum virðisaukaskattsskýrslur í dag. Virðisaukaskattsskýrslur eru ekki gerðar þannig að þú fyllir út pappírsform og skilir því inn. Þú ýtir á takka í bókhaldskerfinu sem segir: Búðu til fyrir mig skýrslu um það hversu mikið var virðisaukaskattsskylt sem ég seldi, hversu mikið var virðisaukaskattsskylt sem ég fékk sem innskatt og sendu þetta inn fyrir mig. Þannig gerum við það í dag í bókhaldskerfinu, einn takki. Það á ekki að vera eitthvert pdf-skjal sem við fyllum út.