Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:53]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir mjög gott svar. Við deilum greinilega þarna ákveðnum áhyggjum. En svo, þar sem neytendavernd er mér alltaf mjög ofarlega í huga, má velta fyrir sér, og mig langar að fá álit hv. þingmanns á því, hvort það hefði verið eðlilegt að fá líka umsagnir frá hagsmunaaðilum neytenda í frumvarpi sem þessu en ekki bara umsögn frá hagsmunaaðilum sem verja alla jafna bara hagsmuni fyrirtækja. Ég er á því að það sé allt of sjaldan spurt um hagsmuni neytenda og í rauninni eigi þeir að koma að og hafa umsagnir í miklu fleiri málum en raun ber vitni vegna þess að við erum öll neytendur og flest af því sem gert er snertir neytendur með einum eða öðrum hætti.

Svo er líka annað sem mig langar að velta upp. Það er hvort hv. þingmanni finnist eðlilegt það verklag sem tíðkast, að ráðuneyti sendi í rauninni bréf til þingnefnda sem segir nefndunum hvað eigi að gera með málin. Ég velti því alla vega fyrir mér hvort þingmenn ættu ekki að fá að fara yfir þessi mál án þess að vera búnir að fá einhvers konar fyrirmæli frá ráðuneytum um hvað þeim eigi að finnast eða hvernig eigi að vinna málin.