Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir þetta seinna andsvar. Það er ýmislegt sem ég held að mætti betur fara í löggjafarvinnu hjá okkur og þar erum við að opna á umræðu sem er enn þá stærri en sú sem við erum að eiga hér. Ég gæti talað ansi lengi um það en nú er ég að verða búin með allan ræðutíma minn í þessari umræðu, því miður. Sérstaklega þegar við erum að ræða stjórnarmál, mál sem koma frá ríkisstjórninni sem studd er af meiri hluta hér á þingi, þá er verklagið þannig að frumvarp kemur sem er útbúið af starfsmönnum í ráðuneytinu, lögfræðingum þar, samkvæmt fyrirmælum ráðherra. Mér finnst því miður bera svolítið á því í umræðunni að það sé í rauninni látið eins og ráðuneytið sem í hlut á sé einhvers konar hlutlaus aðili í þessari löggjafarvinnu. Því fer auðvitað fjarri. Við erum þar að tala um þann ráðherra sem af pólitískum ástæðum, eðlilega, vill gera einhverjar tilteknar breytingar og leggja eitthvað ákveðið fram og hefur fengið þær breytingar útfærðar með aðstoð síns starfsfólks í ráðuneytum sem sannarlega vinnur við að koma vilja ráðherra á blað og í einhvers konar lögfræðilega skiljanlegt form, þótt það takist ekki alltaf. Svona fer vinnan fram. Málið kemur inn í þingnefnd og við fjöllum um það þar og það gefur augaleið að slagsíða er í átt að ráðuneytinu. Þegar álitamál eru um það hvort ákvæðin sem verið er að leggja til brjóti á réttindum einstaklinga eða gætu á einhvern hátt hallað á einhvern hóp, ég tala nú ekki um ef við erum að tala um minnihlutahóp, þá er ekkert óeðlilegt við það að fengið sé utanaðkomandi álit. Það að ráðuneytinu sé boðið að svara umsögnum sem berast er sjálfsagt og eðlilegt, ég ætla ekki að andmæla því. Það er mjög góður bragur á því, sem hefur verið tekið upp í mörgum nefndum, að gera það kerfisbundið. En það er ekki nóg, sérstaklega þegar um hugsanlega skerðingu á mjög mikilvægum réttindum er að ræða.