Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Ég vil kannski byrja svarið á því að rifja upp að NPA er þjónustuform sem byggist á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf fatlaðs fólks, hefur það að markmiði að tryggja mannréttindi þess á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og gera fötluðum einstaklingum kleift að ráða hvar og með hverjum það býr. Þannig stýrir hinn fatlaði einstaklingur því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana. Þar með ræðst þörfin af eftirspurninni. Það sem ég álít óljóst hér er að það liggja ekki fyrir endanlegar upplýsingar um hverjir munu óska eftir svona þjónustu á næstu árum en á hinn bóginn er mjög mikilvægt að við skulum hér með halda áfram að þróa þjónustuna og afla upplýsinga um það sem er óljóst.