Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar en hún hefur eitthvað misskilið mig. Ég ætlaði nú ekki að hirða allan arðinn og hagnaðinn af útgerðarfélögunum, sem hefur verið 533 milljarðar frá árinu 2009. Ég var aðallega að tala um þessa viðbót, 60–70 milljarða sem koma frá lífeyrissjóðunum ef við tækjum staðgreiðslu (Gripið fram í.)við innborgun. En helmingurinn af þessum 533 milljörðum, já, mér hefði þótt sanngjarnt að við hefðum fengið það vegna þess að við eigum auðlindina, ekki satt. En, já, ef þetta væri svona og ef þetta væri hinsegin — það kostar ekkert að láta sig dreyma. Ég og hv. þingmaður erum algerlega sammála um það að við gætum í raun gert svo miklu meira og það fyrir svo miklu fleiri. Við gætum virkilega haft það þannig að hér ríkti meiri jöfnuður og hér liði fólki jafnan betur. Við erum aldrei að tala um það að þeir sem eru duglegir að koma sér áfram og hafa góðar tekjur og slíkt — það er enginn að tala um það. Við erum bara að tala um að hífa hina upp. Við erum bara að tala um að reyna að hjálpa þeim sem þurfa, koma þeim upp þangað sem þeir geta fengið að taka þátt í samfélaginu. Mig langar í því tilefni að benda á fólk sem býr hér niðri í Laugardal, fólk sem fær ekki að skrá lögheimili sitt í þessum hjólhýsum og fellihýsum sem það býr í. Það missir heimilisuppbót. Það hefur enga heimilisuppbót af því að það fær ekki að skrá lögheimili vegna þess að val þess á búsetuformi er ekki viðurkennt, fólk sem hefur ekki efni á að borga 250.000–325.000 kr. á mánuði í húsaleigu og kýs þetta búsetuform. En þá er því refsað. Það er nákvæmlega sama hvert við lítum í þessu kerfi. Þetta er svo hriplekt og götótt að við verðum, hv. þingmaður, eiginlega að fá að stjórna í nokkra daga til að laga þetta, finnst mér.