Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:07]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún var um margt fróðleg. Áætlanir um fjölgun NPA-samninga hafa ekki staðist. Fjöldi NPA-samninga í lok þessa árs ætti að vera 172 samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu en er í dag um 90 og hefur fjöldi samninga staðið í stað undanfarin ár. Ástæðan er sáraeinföld: Vanmat á grundvallarfjárþörf, þ.e. það vantar peninga. Meðalkostnaður við NPA-samninga var 30,6 millj. kr. á síðasta ári. Ég les núna út úr frumvarpinu að það er gert ráð fyrir að 375 millj. kr. dugi fyrir 50 samningum. Meðalsamningur er 30,6 milljónir, 100 samningar eru þá 3 milljarðar og 50 samningar 1500 milljónir. Þeir segja að 375 millj. kr. eigi að duga fyrir 50 samningum. Ég get ekki annað séð en að þetta sé bara vanfjármagnað algerlega út í eitt. Eiga þessir samningar ekki að miða fyrst og fremst við það að allir fái NPA-samninga, notendastýrða persónulega aðstoð, að ríkið tryggi fjármögnunina og það sé rétturinn eins og kveðið er á um í stjórnarskrá og meira að segja þegar litið er til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks? (Forseti hringir.) Gengur það að meira að segja núna eigi að fara að vanfjármagna þetta? Er ekki skylda ríkisins að sjá fyrir nægilegu fjármagni?