Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Lenya Rún Taha Karim) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Hann kom inn á nokkra býsna mikilvæga punkta. Til að byrja með þá er þessi fjárhæð sem hv. þingmaður nefnir bara 25% af ríkisframlagi og það lítur út fyrir að verið sé að fjármagna tólf og hálfan samning eða eitthvað svoleiðis þegar raunin er sú að verið er að fjármagna í kringum 50 samninga. En vissulega er þetta alveg örugglega vanfjármagnað og eðlilega ruglar þessi framsetning þingmenn. Ég veit að ég þurfti að lesa yfir þetta nokkrum sinnum til að átta mig á þessari framsetningu og fjármagninu, hvað verið er að verja miklu í þetta, ekki eyða heldur verja í NPA-samninga.

Síðan er líka spurningin: Snýst þetta ekki bara um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Það var komið inn á þetta í einhverri umræðu í dag, hvort það var hv. þm. Inga Sæland. Það er til fjármagn. Við getum fjármagnað þetta almennilega og þurfum ekkert að vanmeta og vanáætla fjármagn sem fer í þessa samninga. Ég spyr mig þess vegna hvers vegna þetta hefur þurft að sitja á hakanum svona ótrúlega lengi. Ég kom líka inn á það þegar ég var að mæla fyrir þessu nefndaráliti að síðan þessi lög og samningar voru settir á fót þá held ég persónulega að við hefðum getað staðið okkur svo miklu betur í þessum efnum og komið þessu í svo miklu betri farveg heldur en að vera að ræða það rétt fyrir jól að framlengja bráðabirgðaákvæði.

En kjarni málsins er sá að ég held samt sem áður, þrátt fyrir þessa villandi framsetningu, að þetta sé vanáætluð fjármögnun.