Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get ekki annað séð en að verði þetta frumvarp að lögum, með því að við ætlum að framlengja bráðabirgðaákvæðið um tvö ár, til 2024, og bæta því við að á árinu 2023 verði gerðir allt að 145 samningar og árin eftir allt að 172 samningar — eins og kemur fram í greinargerðinni í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt til þessara ára og til komi auknar fjárheimildir, 375 milljónir árið 2023 og 203 milljónir árið 2024. Ég get ekki annað séð, ég tek undir það með NPA-miðstöðinni, en að það sé afar ólíklegt að þessar 375 milljónir, sem mælt er fyrir, dugi til þeirra samninga sem gert er ráð fyrir að verði gerðir árið 2023. Ég get ekki annað séð en að þetta sé vanáætlun. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni, þetta snýst um réttindi fólks og réttinn til þessara samninga og þá verður íslenska ríkið bara að fjármagna það. Mér finnst svolítið að það sé verið að leggja að okkur að samþykkja frumvarp sem fyrir fram er vitað að verður vanfjármagnað. En þetta er reyndar ekki umræða um fjárlög, þetta kemur upp þegar við ræðum fjármögnunina. En mér finnst það mikilvæg skilaboð sem við ættum að senda að láta vita af því að það þurfi nægilegt fjármagn til þessara samninga. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að fyrsta krafa þeirra er að framlag ríkisins hækki úr 25% í 30% og þar er líka tekið fram að heilbrigðiskerfið þurfi (Forseti hringir.) að taka hjúkrunar- og umönnunarþörfina. Er hv. þingmaður sammála (Forseti hringir.) því að hækka framlag ríkisins upp í 30% og að heilbrigðiskerfið taki kostnað vegna umönnunar?