Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Það er stundum eins og fólk í stjórnarliðinu eigi erfitt að skilja á milli veruleika og ímyndunar. Hér fyrr í vikunni var t.d. hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra spurður út í nýfallinn dóm í máli Husseins Husseins. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að brottvísun Husseins og fjölskyldu hans ásamt tuga annarra á götuna í Grikklandi hafi verið ólögleg. Ráðherrann fagnaði niðurstöðunni, hann sagðist fagna þessari niðurstöðu. Ég velti fyrir mér: Er hann í aðstöðu til þess? Má hann leyfa sér að fagna niðurstöðu sem sýnir að hans ríkisstjórn hafi brotið á Hussein? Á sama tíma styður hann skaðræðisfrumvarp Jóns Gunnarssonar um að ganga enn lengra í þessum málum og á sínum tíma sagði hann auk þess ekkert sérstaklega athugavert við brottvísunina nema kannski að það hafi verið slæmt að ekki hafi verið bíll frá ferðaþjónustu fatlaðra til að flytja Hussein úr landi. En nú gleðst hann yfir endurkomu þeirra eins og hann sé bara hvítþveginn af þessum glæp sem ríkisstjórnin framdi. Í gær birtust svo fréttir af því að það eigi að tvístra fjölskyldu með því að vísa 18 ára stúlku úr landi, hún fékk bréf þess efnis, þegar hún verður 18. Það er eins og Útlendingastofnun bíði með puttann á brottvísunartakkanum eftir því að börn nái 18 ára aldri þannig að það sé hægt að sparka þeim úr landi frá fjölskyldum sínum, frá systkinum, feðrum og mæðrum. Eins má nefna fylgdarlausa barnið sem var hent úr landi samhliða Hussein um leið og hann varð 18 ára, upp í vél og úr landi. Dómurinn sem sýnir að Hussein hafi verið órétti beittur, börnin sem kerfið iðar í skinninu að sparka úr landi þegar þau verða 18 ára, skaðræðisfrumvarp Jóns Gunnarssonar: Allt er þetta stefna stjórnvalda. Fólk getur ekki þvegið hendur sínar af þessu ef það er í stjórnarflokkunum. (Forseti hringir.) Staðreynd málsins er að þau bera öll ábyrgð hér. Það verður ekki bæði haldið (Forseti hringir.) og sleppt. Það er ekki hægt að styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og segjast samt styðja rétt fólks á flótta.