Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er í þriðja sinn sem Flokkur fólksins leggur fram breytingartillögu hér í fjárauka þar sem okkur þótti bragur á því að þeir eldri borgarar sem búa við algjörlega óskertar greiðslur almannatrygginga fengju sambærilegar greiðslur og örorkulífeyrisþegar. Okkur hefur tekist í millitíðinni, frá því að ég lagði þessa breytingartillögu fram síðast, að fá úr því skorið hjá Tryggingastofnun að um væri að ræða um 2.080 einstaklinga, þar af 1.032 sem eru öryrkjar, voru það áður en þeir urðu 67 ára gamlir og misstu þar af leiðandi hluta af tekjum sínum vegna aldurstengdrar örorkuuppbótar. Hér er um að ræða 126 millj. kr. til handa gömlu fólki í sárustu neyð og ég gef sem sagt kost á því enn og aftur að taka utan um þennan fámenna hóp og segja: Já, það geri ég.