Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir spurninguna. Eins og kom fram í máli mínu hér áðan þá er í gangi vinna í ráðuneytinu, hjá hæstv. matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur, um endurskoðun á þessu kerfi. Að svo komnu máli þá telur nefndin að það sé eðlilegt að þeirri vinnu sé lokið og að haft sé samráð við greinina hvað það varðar hvernig framtíðartilhögun þessarar gjaldtöku er háttað.

Ég vil einnig fá að árétta það að vorið 2019 voru sett lög um gjaldtöku fiskeldis úr sjó hér á landi þar sem þessi atvinnugrein var á þeim tíma og er enn tiltölulega ný hér á landi. Hún er í gríðarlega miklum fjárfestingarfasa og það þótti eðlilegt að gefa greininni sjö ára aðlögunartíma. Því skýtur það skökku við að mati meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að aðeins þremur árum eftir að gjaldtaka var sett á skuli vera lagðar fram hugmyndir um gjaldtöku, sérstaklega í ljósi þess, eins og ég nefndi hér í upphafi, að hæstv. matvælaráðherra er að vinna greiningarvinnu á greininni með það í huga hvernig framtíðarfyrirkomulagi gjaldtöku verður háttað. Að þeirri vinnu kemur m.a. Boston Consulting Group og ljóst er að það er ekki tímabært að breyta gjaldtökunni frá því sem nú er fyrr en þeirri vinnu er lokið.