Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Við skulum kannski aðeins hafa það í huga hvað er að gerast hérna þegar kemur að skattlagningu ökutækja. Það er sem sagt verið að leggja til mjög umfangsmiklar breytingar. Það er verið að leggja lágmarksvörugjald á alla fólksbíla og tvöfalda lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds. Þannig er í raun verið að draga mjög hressilega úr verðmun á ökutækjum og úr mun á rekstrarkostnaði ökutækja eftir því hvort ökutæki eru sparneytin eða eyðslufrek. Það er í raun, þvert á það sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni, verið að veikja þessa innbyggðu hvata í skattlagningarkerfinu þegar kemur að ökutækjum. Græna orkan varar við þessu og ég tek undir þær viðvörunarraddir.

Þegar kemur að krónutölugjöldum þá er verið að auka gjöld þar, það er verið að hækka skatta. Þótt þessar tölur hafi vissulega dregist saman að raunvirði breytir það ekki því að hér er verið að afla hærri tekna. Vandinn (Forseti hringir.) við þetta er sá að þetta eru gjöld sem bíta þyngst hjá tekjulægstu hópunum. (Forseti hringir.) Var í alvörunni engin önnur leið? Er ríkisstjórnin í alvörunni, og stjórnarmeirihlutinn, svona hugmyndasnauð þegar kemur að því að afla tekna með réttlátum hætti?