Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Norðvest. aftur fyrir og ég deili með honum áhyggjum af stöðu bænda. Ég vil taka það skýrt fram.

Ég náði ekki á þeim stutta tíma sem okkur er gefinn hér að — hann talar um hringrásarvitleysu. Þetta er nú bara veröldin og sá raunveruleiki sem við búum við og við erum að fikra okkur hér í átt að hringrásarhagkerfi. Þetta er liður … (Gripið fram í.) Þetta er liður í því og liður í þeirri vinnu.

Ég vil sömuleiðis, af því að ég tók hér fram að raunkostnaður í kringum vinnu við förgun á þessari vöru hér á Íslandi er talinn vera um 120 kr. á kílóið. Við getum sent þetta erlendis til endurvinnslu og þá eru það 38 kr. á kílóið. Það er ekki í anda hringrásarhagkerfis eða þeirrar vinnu sem við erum, eins og ég sagði, að fikra okkur í áttina til. (Forseti hringir.) Ég vil ítreka aftur þau orð mín að ég hef trú á því að það verði fundin lausn (Forseti hringir.) til að koma til móts við bændur hvað þetta varðar.