Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir hér nefndarálit. Mig langar að nefna nefndarálit 4. minni hluta, Pírata, sem í raun má segja að snerti þrjú mál og það er kannski lítið miðað við umfang frumvarpsins. Í nefndarálitinu er góður kafli um metanbifreiðar og af hverju ríkið eða ríkissjóður hefur kosið að þær njóti ekki ívilnunar. Ég vil halda því fram að það sé vegna þess að metanbílar séu ekki hreinorkubílar. Við vitum að metanbílar geta notað innlent eldsneyti, metan, og eftir því sem ég best veit er verið að brenna það í staðinn fyrir að nýta það, sem er þá auðvitað auðlind sem er verið að sóa. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála því að metanbílar hafi orðið undir í þessari þróun bílaframleiðenda í heiminum þar sem nær allir framleiðendur leggja mikla áherslu á hreinorkubíla sem eru knúnir af rafmagni eingöngu.